Ljósmynd: Bolla, Móna Róbertsdóttir Becker.Svo er nú nefndur mánudagurinn í föstuinngang. Þetta heiti hans mun reyndar vera tiltölulega ungt, en fyrirbærið sjálft er þó a.m.k. nálægt hundrað ára gamalt hérlendis. Flest bendir til að siðurinn hafi borist hingað fyrir dönsk eða norsk áhrif á síðari hluta 19. aldar, líklega að frumkvæði þarlendra bakara, sem settust hér að. Þó hefur hann öðlast hér nokkra sérstöðu. Aðalþættir hans eru tveir: að flengja menn með vendi, áður en þeir komast úr bólinu, og fá í staðinn eitthvert góðgæti, hér rjómabollur. Fyrra atriðið mun eiga rót sína að rekja til þeirra hirtinga og písla, sem menn lögðu á sig og aðra sem iðrunarmerki á föstunni, til að minnast pínu frelsarans.

En eftir siðbreytinguna þróaðist þetta hvarvetna smám saman yfir í gamanmál. Bolluátið mun hins vegar vera leif frá því að „fasta við hvítan mat”, nema nú var hann mun betur úti látinn en fyrrum. Þesskonar bolluát eða feitmetisát virðist á öðrum Norðurlöndum reyndar hafa verið meir bundið við þriðjudaginn næsta. En á Íslandi hafa menn fest þennan sið við mánudaginn, sennilega til að trufla ekki hefðbundinn matarsið morgundagsins. Vitað er, að ekki síðar en milli 1880-90 höfðu börn í Hafnarfirði og Reykjavík fyrir sið að fara fylktu liði um götur á bolludaginn, búin stríðsklæðum og trévopnum með bumbuslætti og söng, og sníkja peninga eða sælgæti í verslunum. Er þetta arfur frá „föstugangshlaupum” þeim, sem einnig verður vikið að í sambandi við næstu tvo daga.

Birt:
8. febrúar 2016
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Bolludagur“, Náttúran.is: 8. febrúar 2016 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/bolludagur/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 7. febrúar 2016

Skilaboð: