Aukefni í matvælum eru fjölbreytt að gerð og uppruna. Þau eru ýmist framleidd með efnafræðilegum aðferðum eða unnin úr jurtum eða dýraafurðum. Aukefni eru notuð í margvíslegum tilgangi við framleiðslu og geymslu matvæla og eru flokkuð eftir tilgangi notkunar í rotvarnarefni, litarefni, þykkingarefni og fleiri flokka. Rotvarnarefni eiga þátt í að gera matvæli öruggari til neyslu, litarefnin gefa matvælum lit og þykkingarefni gefa sósum og sultum sína réttu áferð.Aukefni eiga alltaf að vera merkt á umbúðum matvæla þannig að heiti flokksins komi fram og síðan á annaðhvort E-númer eða heiti aukefnis að fylgja. Dæmi: litarefni (karmín), eða litarefni (E-120).Um notkun aukefna í matvæli á Íslandi gilda ákveðnar reglur, þær sömu og hjá Evrópusambandinu. Reglurnar segja til um í hvaða matvæli má nota hvaða aukefni og í hve miklu magni. Öll aukefni þurfa að gangast undir áhættumat og fá viðurkenningu Evrópusambandsins til að mega notast í matvæli. Þegar gengið hefur verið úr skugga um að efni séu örugg fá þau E-númer. Áhættumatið er gert hjá Matvælaöryggisstofnun Evrópu. Sum efni eru leyfð án takmarkana í flest matvæli meðan önnur eru háð ströngum skilyrðum sem takmarka notkun þeirra. Hámarksnotkun aukefna miðast við svokallað daglegt neyslugildi (e. ADI) það er ákveðið magn efnisins á hvert kg líkamsþunga. Þetta er það magn sem einstaklingur getur innbyrt daglega alla ævi án þess að hætta stafi af. Ofnæmi er undanskilið í því mati. Til þess að kanna hvort neysla efnanna er innan marka þarf að gera neyslukannanir til þess að finna út hve mikil neysla er á matvælum sem innihalda aukefnin. Þannig var neysla sætuefnanna aspartams, sýklamats og asesúlfam-k könnuð hér á landi árið 2002 og þá kom í ljós að meðalneysla þeirra er langt innan daglegra neyslugilda.

Ákveðnar reglur gilda um hvaða aukefni má selja í verslunum til heimilisnota. Litarefnin í matarlit og lyftiefnin lyftiduft og matarsódi eru vel þekkt. Við hlaup- og sultugerð er oft notað pektín eða agar. Allt eru þetta aukefni. Stundum er þó lítill munur á matvælum og því sem flokkað er sem aukefni og er það af sögulegum ástæðum. Þannig telst matarlím (gelatín) ekki vera aukefni, en agar sem virkar eins í matvælum er aukefni. Einnig er athyglisvert að salt er í raun notað sem aukefni, en flokkast ekki þannig.

Sjá vef Matvæla- og næringarfræðifélags Íslands.

Birt:
July 10, 2008
Höfundur:
nmi.is
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
nmi.is „Aukefni í matvælum“, Náttúran.is: July 10, 2008 URL: http://nature.is/d/2008/07/10/aukaefni-i-matvaelum/ [Skoðað:Aug. 11, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Feb. 3, 2013

Messages: