Fyrirlestraröð Toppstöðvarinnar - Úrgangur og efniviður - vistvænar lausnir og endurvinnsla
Laugardaginn 2. febrúar frá kl. 11:00 til 13:00 verða þrír áhugaverðir fyrirlestrar fluttir hjá Toppstöðinni við Rafstöðvarveg.
Dagný Bjarnadóttir
Áhugi á vistvænum lausnum og endurvinnslu eykst með ári hverju. Sú staðreynd að úrgangur er vaxandi vandamál, ásamt því að hráefnisskortur er fyrirsjáanlegur í nánustu framtíð, leiðir hugann að því að nýta betur hráefni sem við köllum "úrgang“. Í fyrirlestri sínum mun Dagný Bjarnadóttir landslagsarkitekt kynna verkefni sem byggja á endurnýtingu hráefnis sem áður hefur verið sett til hliðar sem úrgangur. Fyrirlesturinn verður út frá myndefni af raunverulegum verkum og ferlinu sjálfu frá hugmyndafræði, hönnun og úrvinnslu.
Dagný Bjarnadóttir lauk námi sem landslagsarkitekt frá KVL (den Kongelige veterinær og Landbohøjskole) í Kaupmannahöfn 1992, verk hennar byggja á 20 ára starfsreynslu á fagsviði landslagsarkitekta. Dagný starfar undir nafninu DLD - Dagný Land Design sem stofnað var á vormánuðum árið 2011. Verkefni Dagnýjar eru fjölbreytt, þar á meðal eru innsetningar, vöruþróun og hönnun á nytjahlutum. Gróður -húsgögnin Furnibloom hafa vakið athygli víða um heim og urðu til þess að hún var valin til að hanna samnorræna landslagsarkitektúr sýningu, New nordic landscapes í tengslum við Expo í Shanghai 2010. Einnig var Dagný hluti af hönnunarteymi Flikk Flakk þáttanna sem sýndir voru í ríkissjónvarpinu síðastliðið sumar. Þættirnir eru raunveruleikaþættir, þar sem hugmyndafræðin byggir á þátttökuhönnun (participation design), þar sem í mjög hröðu og ódýru ferli er hægt að máta lausnir sem síðan má þróa og hanna nánar ef vel reynist. Í fyrilestrinum mun Dagný m.a sýna hvernig „úrgangur“ var nýttur í þessu verkefni.
Ásta Creative Clothes
Ásta Vilhelmína Guðmundsdóttir er fatahönnuður ásamt því að fást við ýmisskonar innsetningar á textilverkum og öðru. Að undanförnu hefur hún tekið þátt í vinnustofum, Symposium, hérlendis og erlendis. Ásta segir frá verkum sínum og því sem skiptir hana mestu máli í sköpun sinni.
Rafbílaþróun HÍ og LHÍ
Ragnheiður Björk Halldórsdóttir, Páll Gunnarsson og Einar Hreinsson, nemendur og leiðbeinandi í iðnaðarverkfræði við HÍ, munu flytja fyrirlesturinn um Formula Student. Verkefni sem þau hafa tekið þátt í frá síðasta hausti.
Um er að ræða hópverkefni sem unnið er fyrir Formula Student keppnina, sem haldin er ár hvert á Silverstone brautinni í Englandi. Í keppninni takast á lið frá hinum ýmsu heimshornum. Liðið, sem heldur utan um hönnun og smíði bílsins hérlendis kallar sig Team Spark. Þessi eins manns kappakstursbíll er bæði hannaður og smíðaður frá grunni af nemendum á verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands ásamt nemendum í vöruhönnun Listaháskóla Íslands. Hópinn skipa aðallega verkfræðinemar sem allir hafa sameiginlegan metnað fyrir hönd verkefnisins sem slíks, ásamt því að öðlast við vinnu þess ómetanlega reynslu sem mun án efa nýtast þeim og samfélaginu til frambúðar. Mörgum þykir verk sem slíkt, að smíða kappakstursbíl, töluvert óraunhæft, en Team Spark nýtir reynslu sem hópurinn öðlast við þróun bílsins og trúir á árangur umhverfisvæns rafmagnskappakstursbíls.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Fyrirlestraröð Toppstöðvarinnar - Úrgangur og efniviður - vistvænar lausnir og endurvinnsla“, Náttúran.is: 31. janúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/01/31/fyrirlestrarod-toppstodvarinnar-urgangur-og-efnivi/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.