Í ágúst sl. birti hópur vísindamanna undir forystu G.E. Séralini niðurstöður 2ja ára rannsóknar á erfðabreyttum maís sem skók vísindasamfélagið og afhjúpaði galla í kerfi leyfisveitinga til ræktunar erfðabreyttra plantna í Evrópu. Erfðabreytta maísyrkið (NK603) sem Séralini notaði hafði áður verið leyft af Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) og þar með verið talið öruggt í manneldi og fóðrun á grundvelli skammtíma (90 daga) tilrauna með rottur. Rannsókn Séralini sem stóð í 2 ár (ævilengd rottu) komst að því að rottur sem fengu erfðabreytta maísyrkið mynduðu æxli, lifðu skemur og eitrun kom fram í lifur og nýrum.

EFSA hefur aldrei rökstutt hvers vegna stofnunin fer aðeins fram á að líftæknifyrirtæki leggi fram 90 daga dýratilraunir þegar ljóst má vera að langtímarannsóknir gefi réttari mynd af heilsufarsáhrifum. Enn fremur sætir EFSA harðri gagnrýni fyrir að veita leyfi fyrir erfðabreyttum afurðum (plöntum/plöntuafurðum) á grundvelli rannsókna sem umsækjendur sjálfir gera, í stað rannsókna vísindamanna sem eru óháðir viðkomandi fyrirtækjum. Ekki veldur síðri áhyggjum að nefnd „sérfræðinga" EFSA, sem ákveður hvaða erfðabreyttar afurðir skuli samþykktar, er að meirihluta skipuð mönnum sem ýmist störfuðu í líftæknifyrirtækjum eða vinna fyrir þrýstihópa í þeirra þágu. Vegna hagsmunaárekstra innan EFSA hafa stjórnvöld nokkurra Evrópulanda kvartað við Evrópuþingið sem frestaði fjárveitingum til EFSA uns stofnunin samþykkti að taka á vandanum.

Æsileg viðbrögð
Þegar niðurstöður rannsóknar Séralini voru birtar ollu þær æsilegum viðbrögðum vísindamanna sem vinna í þágu líftæknifyrirtækja. EFSA fór í varnarstöðu og afneitaði rannsókninni. Hún hefði með réttu átt að auka áhuga innan vísindasamfélagsins á langtímarannsóknum heilsufarsáhrifa erfðabreyttra afurða. Gagnrýnendur sem hagsmuna eiga að gæta skipulögðu hins vegar harkalega árás á rannsóknina og aðalhöfund hennar. Mótbárur þeirra afhjúpa tvöfalt siðgæði, með fullyrðingum um galla á rannsókn Séralini, sem ýmist var horft framhjá eða réttlættir voru í umfjöllun um rannsóknir líftæknifyrirtækja. Séralini var krafinn um birtingu grunngagna rannsóknar sinnar, þótt EFSA láti fyrirtæki sem sækja um leyfi komast upp með að halda sínum gögnum leyndum.

Þess var jafnvel krafist að tímaritið sem birti ritrýnda rannsókn Séralini (Food & Chemical Toxicology) drægi greinina til baka. Áköfustu gagnrýnendur voru þó ekki með sérþekkingu á eiturefnafræði eða dýratilraunum, heldur á plöntuerfðafræði og erfðatækni, vísindamenn sem eiga stofnana- og persónulegra hagsmuna að gæta. Meðal þeirra eru jafnvel „vísindamenn" tengdir öfgafullum þrýstihópum sem afneita t.d. loftslagsbreytingum.

Tímabær endurskoðun
Rannsókn Séralini hratt af stað deilum sem leitt hafa til tímabærrar endurskoðunar á þeim grunni sem lagareglur ESB um erfðabreyttar afurðir byggja á. Framvegis má gera ráð fyrir að fyrirtæki sem sækja um leyfi til ræktunar á erfðabreyttum plöntum í Evrópu verði krafin um betri vísindarannsóknir til að færa sönnur á öryggi þeirra. EFSA og framkvæmdastjórn ESB hafa nú samþykkt að hanna og fjármagna nýja langtíma (2ja ára) rannsókn á heilsufarsáhrifum erfðabreyttra afurða. Hér er komið til móts við góð vísindi. Þegar vísindamaður á borð við Séralini (sem er tvímælalaust í hópi fremstu sameindalíffræðinga okkar daga) leggur fram rannsóknir, sem setja spurningamerki við ríkjandi starfshætti, er fráleitt að skella skollaeyrum við þeim, heldur ber að fylgja þeim fast eftir. Nú hvílir sú skylda á yfirvöldum ESB að hanna nýjar tilraunir með aðkomu sjálfstæðra vísindamanna eins og Séralini, en ekki aðeins þeirra sem starfa í líftæknifyrirtækjum.

Við væntum þess að íslensk yfirvöld fari að fordæmi EFSA. Umhverfisstofnun hefur allt frá árinu 2003 leyft útiræktun á erfðabreyttum plöntum sem áhættusamastar eru – erfðabreyttu lyfjabyggi – á allt að tugum hektara lands í Gunnarsholti. Þeir sem þróa þetta erfðabreytta bygg, svo og yfirvöld, hafa fullyrt að sýnt hafi verið vísindalega fram á öryggi þess þrátt fyrir að engar dýratilraunir hafi verið gerðar og áhættumat hafi ekki falið í sér greiningar á grunnvatni og jarðvegi. Svo virðist sem veiting þessara leyfa hafi verið af pólitískum toga – en ekki vísindalegum. Slæmar pólitískar ákvarðanir er stundum hægt að draga til baka og vonandi verður það gert í þessu tilviki. En tjón á trúverðugleika vísindasamfélagsins er ekki jafn auðvelt að bæta. Íslenska vísindasamfélagið þarf að viðurkenna, líkt og EFSA neyddist til, að ekki er nóg að lýsa eitthvað öruggt, heldur þarf að sýna fram á að svo sé.

Ljósmynd: Greinarhöfundur Sandra B. Jónsdóttir. sjálfstæður ráðgjafi.

Birt:
22. janúar 2013
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Sandra B. Jónsdóttir „ Evrópa endurmetur öryggi erfðabreyttra afurða“, Náttúran.is: 22. janúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/01/22/evropa-endurmetur-oryggi-erfdabreyttra-afurda/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: