Virkjanakraðak
Í samantekt Fréttastofu RÚV kemur fram að af þeim 16 virkjunum sem eru í nýtingarflokki Rammaáætlunar eru 12 í undirbúningi en þó „… mjög mislangt komnar.” Þessar virkjanakostir eru fyrir norðan, vestan, sunnan og á Reykjanesi. Flestar eru þessar virkjanir jarðvarmavirkjanir og undir 100 megavöttum að afli.
Samkvæmt fyrrgreindri frétt RÚV væri unnt að sópa saman um það bil 800 MW og enn sem fyrr er viðmiðunin Kárahnjúkavirkjun 690 MW fyrir 360 þúsund tonna álver Alcoa á Reyðarfirði. Flestar ef ekki allar þessar virkjanir í upptalningu RÚV eru innan við 100 MW að afli. Verði þessari orku sópað saman með öflugum háspennulínum myndi hún duga fyrir eitt stórt álver eða rétt rúmlega það.
Með þetta virkjanakraðak verður að spyrja hvaðan Norðurál/Century Aluminum ætlar að kaupa c.a. 700 MW fyrir 400 þúsund tonna álver í Helguvík? Á hverju byggja væntingar ASÍ og SA um slíkar framkvæmdir?
Samtök atvinnulífsins virðast líta á það sem hlutverk ríkisins að setja framkvæmdir af stað með því að selja orku við lágu verði til álfyrirtækja en er þetta raunhæft? Kárahnjúkavirkjun er rekin með tapi, lánshæfi Landsvirkjunar takmarkast af lágu orkuverði og tengingu þess við heimsmarkaðsverð á áli. Ekki er ástandið betra hjá Orkuveitu Reykjavíkur sem hefur reynt allt til að komast hjá að standa við gerða samninga um sölu orku frá Hverahlíðavirkjun til Helguvíkur. Orkusamningurinn var svo lélegur að tap blasir við var þó ekki á það bætandi.
Núverandi yfirstjórn Landsvirkjunar fann sig knúna til að endurmeta orkugetu virkjana í Bjarnarflagi, Kröflu og Þeistareykjum. Í kjölfarið reyndist ekki mögulegt að tryggja Alcoa orku fyrir álver á Bakka, a.m.k. 500 megavött. Hæpið er að HS orka geti veitt Century Aluminum/Norðuráli nokkrar tryggingar.
Leyfi hefur verið veitt fyrir stækkun Reykjanesvirkjunar en Eldvörp og Sveifluháls eru enn fuglar í skógi. Samtals ku þessar virkjanir vera 220 megavött að afli en það eru hreinar ágiskanir. Jafnframt er alveg óljóst hversu lengi orkan endist. Helguvíkurálverið þarf að minnsta kosti 700 megavött. Að viðbættri Hverarhlíðavirkjun gæti talan verið komin upp í 310 og þá erum við ekki að gera ráð fyrir orkuþörf annarra fyrirtækja en álvera.
Restin af virkjunarkostunum er fyrir norðan og að mestu ætlaðar fyrir önnur verkefni. Vestfirðingar virðast líta svo á að Hvalárvirkjun (30 MW) ásamt dýrum línulögnum á kostnað ríkisins eigi að tryggja orkuöryggi vestra. Virkjanir í Þingeyjarsýslum voru þegar síðast fréttist ætlaðar fyrir iðnaðaruppbyggingu á Húsavík.
Enn verður að spyrja hvaðan á að smala orku fyrir 400 þúsund tonna álver í Helguvík? Hvernig stendur á því að ASÍ bindur trúss sitt við fyrirtæki á borð við Century Aluminum sem hóf framkvæmdir án þess að vita hvar skyldi virkja? Hvernig getur forusta ASÍ veifað slíkum atvinnutækifærum framan í félaga sína?
Höfundurinn Árni Finnsson er formaður Náttúruverndarfélags Íslands.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Virkjanakraðak“, Náttúran.is: 22. janúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/01/22/virkjanakradak/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.