Shell í vanda við Alaska
Í framhaldi af strandi Kulluk olíupallsins við Sitkalidakeyju við Alaska á nýársnótt eykst nú þrýstingur á ríkisstjórn Baracks Obama að fresta öllum frekari áætlunum um olíuboranir á Norðurheimskautssvæðinu. Forsvarsmenn olíufélagsins Shell, sem er eigandi pallsins, leggja á það áherslu að strandið hafi átt sér stað við flutning á pallinum og hafi ekkert með olíuboranir að gera sem slíkar. Umhverfisverndarsamtök benda hins vegar á að strandið sé sönnun þess að olíufélög geti ekki fyrirbyggt umhverfisslys í tengslum við olíuvinnsluna. Frá því á árinu 2005 hefur Shell varið um 4,5 milljörðum dollara (um 600 milljörðum ísl. kr.) í undirbúning olíuvinnslu á norðurheimskautssvæðinu við Alaska, en enn hefur ekki reynst unnt að hefja boranir.
(Sjá frétt PlanetArk 4. janúar).
Ljósmynd: Mynd með fréttinni á planetark.org.
Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Shell í vanda við Alaska“, Náttúran.is: 8. janúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/01/08/shell-i-vanda-vid-alaska/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. janúar 2013