Langafasta
Hún hét einnig sjöviknafasta og miðaðist við sunnudaginn sjö vikum fyrir páska. Föstuhald hófst þó í rauninni ekki fyrr en á miðvikudegi (öskudegi), en næstu dagar á undan nefndust föstuinngangur og voru fremur skemmtunardagar. Þar sem sunnudagar drógust frá ásamt mánudegi og þriðjudegi í föstuinngang, stóð fastan sjálf í 40 virka daga. Það var sami tími og Jesús fastaði í eyðimörkinni og Móses á Sínaífjalli.
Dagarnir 40 hafa gegnt miklu hlutverki meðal gyðinga, t.d. rigndi 40 daga og 40 nætur í Nóaflóði og Jesús steig upp til himna 40 dögum eftir upprisuna. Níuvikna fasta var einnig til og hófst tveim vikum fyrr en sjöviknafasta. Hana lögðu menn á sig sem sérstaka yfirbót, ýmist af frjálsum vilja eða vegna skipunar frá kirkjuyfirvöldum, og var það skiljanlega mun oftar.
Það kemur víða fram í Bíblíunni, að föstuhald hafi verið iðkað meðal gyðinga. Slík takmörkun á neysli tiltekinnar matvöru er kunn í ýmsum myndum meðal margra þjóða og á sér venjulega hagrænar eða heilsufræðilegar frumorsakir, sbr. heilögu kýrnar á Indlandi. Upphaflega mun bann við kjötári snemma vors vera sprottið upp meðal hirðingaþjóða eins og Hebrea af þeirri einföldu staðreynd, að mjög óhagkvæmt er að slátra lambfullum ám. En lambhrútar, sem slátra mátti, hafa um þetta leyti árs yfirleitt verið upp étnir eða seldir. Til þess að hræða óhlýðna menn frá drápi ásauðar, hefur bannið verið gert að trúaratriði og lögmáli.
Páskarnir voru svo upprunalega hátíð til að fagna fæðingu fyrstu lambanna, og þá átu menn líka páskalambið. Svo er helst að skiljá á Markúsarguðspjalli 2,18, að Jesús Kristur hafi viljað draga úr föstuhaldinu. E.t.v. hefur það þá verið orðið úrelt frá uppruna sínum og Jesús sem oftar viljað láta heilbrigða skynsemi ráða. Í fornkirkjunni var fastan fyrir páska heldur ekki nærri því eins löng og síðar varð. Það er ekki fyrr en á 4. öld, sem 40 daga fastan er lögð fyrir allan hinn kristna heim. Helst er svo að sjá sem yfirvöld hafi þá tekið að beita þessu trúarlega matarbanni sem einskonar hagstjórnartæki. Með því var unnt að takmarka neyslu almúgans á kjöti og öðrum matartegundum efitr því hvaða afurðum kirkja og aðall þurftu mest á að halda handa sér og her sínum. Í annan stað hlutu menn því fremur að freistast til að brjóta bannið sem fastan var strangari. En við því lágu einatt misháar sektir, sem runnu beint eða óbeint til kirkjunnar.
Fastan var því mismunandi ströng á ólíkum tímum og meðal ýmissa þjóða eða réttara sagt í ýmsum ríkjum. Stundum var látið nægja að banna kjöt og um leið oft egg og smjör. Það hét að fasta við fisk. Væri fiskur líka forboðinn, en grænmeti enn leyft, hét það að fasta við þurrt. Væru mönnum líka meinaðir jarðarávextir, var það kallað að fasta við hvítan mat en þá mátti enn borða mjólkurafurðir aðrar en smjör. Ströngust var vatnsfasta, þegar aðeins mátti neyta vants og brauðs með salti. Misjafnt var eftir dögum og föstutímum, hvort eta mátti einmælt eða tvímælt á dag. Það er því ljóst, að menn sveltu sig ekki heilu hungri, nema e.t.v. dag og dag fyrir altarisgöngu eða til að afplána refsingu, heldur er um nokkurskonar skömmtun á ákveðnum fæðutegundum að ræða. Ekki er nægilega ljóst, hvernig föstunni var hagað á Íslandi á hinum ýmsu tímabilum, enda er um að ræða flóknar og breytilegar reglur, sem langt mál þyrfti til að útskýra. En hefðbundið bann við neyslu kjötmetis virðist hafa verið í gildi lengi eftir siðbreytingu.
Eru til um það ýmsar sögusagnir, flestar líklega heldur alvörulausar, einsog að menn hafi jafnvel mátt varast að nefna orðið „ket“ eða samsetningarnar af því alla langaföstuna, sbr. þetta alkunna vísuhnoð: Enginn mátti nefna ket alla föstuna langa hver sem það af sér heyra lét hann var tekinn til fanga. Þegar ekki varð hjá því komist að ræða um ket, var notuð um það kenningin „klauflax·, og svo langt var gengið, að mannsnafninu Ketill var breytt í „höldupottur“ á föstunni. Einhver sannleikskorn kunna að vera til í þessum sögum, því að kjötgráðugum mönnum hefur sjálfsagt þótt innanskerandi að heyra gasprað um hina forboðnu rétti og fá ekki annað en vatn í munninn og því viljað banna allt slíkt umtal. Húslestrar voru iðkaðir af mestri kostgæfni á langaföstu, og mátti af því skilja, að maðurinn lifir ekki á kjöti einu saman. Var þá víða lesið bæði kvölds og morgna, og í því skyni voru m.a. til prentaðar „tvennar sjö sinnum sjö hugleiðingar“. En annars fór það mjög eftir bókakosti, tísku og smekk, hvað var lesið hvar og hvenær. Venjulega var sunginn sálmur eða vers bæði á undan og eftir lestri. Síðan gerðu menn bæn sína.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Langafasta“, Náttúran.is: 13. febrúar 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/langafasta/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 6. janúar 2013