Það er árleg hátíð þegar fyrstu ræktuðu jurtirnar eru teknar inn, jafnvel þótt það séu aðeins blaðbroddar. Þeir stækka fljótt. Þann 12. maí 2002 hef ég skrifað hjá mér: – Búið að vera heldur kalt og oft næturfrost. Skrýtið að vera að rækta úti í frostinu. Ég tíndi úr gróðurhúsinu sellerístilka, steinselju og blaðbeðju frá í fyrra, sem allt var að vaxa upp og ætlar að fara að mynda fræ. Þarna sat ég og hugsaði hvað ég gæti nú gert við þetta. Las í ítalskri kokkabók um rísottó, blautt með sterkum kryddjurtum.

Rísottó fyrir villijurtir og vorjurtir
Hitið olíu
setjið í marinn hvítlauk
setjið í hrísgrjónin og hafið í olíunni í 5 mín setjið í grænmetið, sem má vera villijurtir á vorin – kryddjurtir og hvaðeina sem kemur upp snemma í gróðurhúsi. Seinna um sumarið má það vera smátt skorinn kúrbítur, grænkál eða spínat. Setjið út á soð með ögn af salti, gjarnan grænmetissoð en aðeins lítið í einu og láta hrísgrjónin drekka það í sig í skömmtum. Endurtaka þetta nokkrum sinnum. Setjið yfir rifinn parmesanost, svartan pipar og smjör eða olíu.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.

Birt:
19. maí 2013
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Fyrstu ræktuðu jurtirnar“, Náttúran.is: 19. maí 2013 URL: http://nature.is/d/2007/11/07/fyrstu-rktuu-jurtirnar/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 7. nóvember 2007
breytt: 14. mars 2014

Skilaboð: