Kóngsbænadagur - Hinn almenni bænadagur
Þessi dagur var fyrst skipaður hér af Kristjáni konungi 5. með tilskipun frá 27. mars 1686. Hann átti að vera allsherjar iðrunar- og bændadagur. Hann gilti auðvitað fyrir öll lönd innan ríkisins, og þar er kveðið svo á, að hann skuli jafnan haldinn fjórða föstudag eftir páska. Þá skyldi hringja kirkjuklukkunni kl. 6, loka öllum verslunum og krám (sem hér voru vitaskuld ekki til), menn skyldu hætta vinnu, en ganga til guðshúss. Og þann dag átti að fasta. Opinbert nafn dagsins var Hinn almenni bændadagur, en Íslendingar höfðu innan áratugs fundið honum heitið kóngsbænadagur. Þetta stafar líklega af því, að hann var ekki einn af hefðbundnum helgidögum kirkjunnar, heldur skipaður af kóngi sérstaklega.
Þegar menn svo höfðu gleymt, hversu háttað var um upphaf hans, hafa þeir getið þess til, að þá ætti aðallega að biðja fyrir kónginum, einsog segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. En það var raunar gert við sérhverja guðsþjónustu. Ósagt skal látið, hvort þessi skoðun hefur valdið nokkru um, að dagurinn virðist hafa verið heldur óvinsæll. Líklegt er, að mönnum hafi verið í nöp við hann vegna föstunnar, einsog vísan sú arna bendir á: Innan sleiki ég askinn minn ekki er fullur maginn. Kannast ég við kreistinginn kóngs- á bænadaginn.
Annað erindi og lengra er til um það, hvernig fara skyldi í kringum kóngsbænadagsföstuna. Um Ísalönd aukast nú vandræðin. Fer í hönd föstudagssulturinn. Fyrir því kvíða margur má matbráður dóni að engu skuli hann fæðslu fá frá föstudags nóni til laugardags lifandi nauða ég sé það strax þeir svelta til dauða. Annars lags má leita við kauða: að skammta þeim fullan skattinn sinn áður en kirkju fara á fund svo fullur sé maginn og kreiki þeir svo með káta lund á kóngsbænadaginn.
Árið 1893 er kóngsbænadagurinn numinn úr gildi sem helgidagur á Alþingi. Frumvarpið náði upphaflega einnig til skírdags, annars í páskum, uppstigningardags og annars í hvítasunnu. Er þetta greinilega einn liður í þeirri viðleitni stjórnvalda að fækka helgidögum, sem þau höfðu öðru hverju haft í frammi eftir siðbreytinguna. En eftir talsverðar umræður á Alþingi þótti ógerlegt að nema þessa helgu daga úr lögum, því að talið var, einsog segir í nefndaráliti, "að það mundi ef til vill særa tilfinning ýmsra manna meðal þjóðarinnar. En annars vegar álítum vér, að vel muni mælast fyrir, þótt kóngsbænadagur sé numinn úr helgidagatölu. " Enda var það samþykkt með þessu orðalagi: "Kóngsbænadagur er úr lögum numinn sem helgidagur", enda þótt hann hefði aldrei heitið svo opinberlega. M.a.s. var felld breytingartillaga um, að í stað orðsins kóngsbænadagur kæmi hið opinbera nafn hans, "hinn almennilegi bænadagur" Þótt þessi helgidagur hafi e.t.v. verið fáum harmdauði, var samt til fólk nokkuð fram á þessa öld, sem taldi ósvinnu að vinna á kóngsbænadaginn.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Kóngsbænadagur - Hinn almenni bænadagur“, Náttúran.is: 20. maí 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/kngsbnadagur/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 1. janúar 2013