Frá Dolmadakiu í Grikklandi kemur uppskrift að fyllingu sem er vafin í vínviðarlauf og soðin. Á þessum rétti er gott að spreyta sig við sérstaklega hátíðleg tækifæri enda er hann talinn til þeirrar fæðu sem hæfi sjálfum guðunum.

3/4 bolli stutt hrísgrjón 1/4 bolli furuhnetur vorlaukur, graslaukur eða blaðlaukur fínt hakkaður væn teskeið af fínsaxaðri steinselju og önnur af dilli 1/4 bolli af rúsínum sem lagðar hafa verið í bleyti í hvítvíni (eða mysu) nokkra stund 1–2 sítrónur gott soð, má vera grænmetis- eða kjúklingasoð 3/4 bolli ólífuolía salt og pipar 30–40 falleg vínviðarblöð eru skoluð með sjóðandi vatni, þurrkuð og stilkarnir skornir frá.

Blöðin eru lögð á borð með glanshliðina niður. Hluti af olíunni er hitaður í pönnu, laukur og steinselja sett þar í og látið meyrna. Síðan er bætt í hrísgrjónunum, dillinu, furuhnetunum, rúsínunum með víninu (mysunni) og nægum soðkrafti fyrir hrísgrjónin. Þetta er látið malla upp undir stundarfjórðung og kælt. Á miðju hvers vínviðarlaufs er sett 1 teskeið af kaldri hrísgrjónafyllingu. Endarnir eru brotnir inn og rúllað upp svo úr verði ílangir vafningar. Þeim er raðað þétt saman í pott. Dreifa skal olíu milli laga og yfir og bæta við meiri soðkrafti og sítrónusafa. Á þetta skal leggja létt farg (diskur er fínn) og sjóða síðan við vægan hita í 40 mínútur. Hella burt soðinu og bera fram með sítrónuberki (hann skiptir máli) og sykurlausri jógurt.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum. Grafík: Hildur Hákonardóttir.

Birt:
10. júní 2013
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Fæði guðanna“, Náttúran.is: 10. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2008/05/29/faeoi-guoanna/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 29. maí 2008
breytt: 1. janúar 2013

Skilaboð: