Litir náttúrunnar
Á vorin er gnótt af grænum blöðum, villtum og ræktuðum. Þegar líður að sumri fara radísurnar, morgunfrúarblöðin, kúrbítsblómin og síðan tómatarnir að setja gulan og rauðan svip á matarborðið og með haustinu koma svo berin með höfugri liti og meira út í blátt. Fæðan hefur alla liti regnbogans og það má vinna með litunum á ýmsa vegu. Ein leiðin er að nota liti, sem taldir eru virka gegn ákveðnum kvillum. Önnur aðferð er að neyta fæðu, sem framkallar það skaplyndi sem við sækjumst eftir hverju sinni. Gult er gott þegar við ætlum að hugsa skipulega og grænt róar. Þriðja aðferðin og skemmtilegt íhugunarefni er að vekja orkustöðvarnar eina af annarri gegnum daginn með viðkomandi litum. Fyrst rótarstöðina rauðu, þá harastöðina gulrauðu og sólarplexusinn sem er gulur. Hjartastöðin er græn, stöðin milli háls og hjarta er blágræn, hálsstöðin blá og höfuðstöðvarnar fjólubláar. Hvítt er ýmist tengt hvirflinum eða jafnvægi allra stöðvanna.
Regnbogafæða
Á morgnana má finna ýmislegt rautt eins og tómatsafa, ber og berjamauk á brauð eða rauð epli. Það er allavega gott að taka eftir einhverju rauðu í morgunmatnum og beina huganum að rótarstöðinni og ýta við henni með huganum. Gera það sama við hinar orkustöðvarnar yfir daginn. Það leiðir líka athygli okkar að líkamanum og þá er líklegra að við tökum eftir hverjar þarfir hans eru og í því felst oft mikil lækning.
Um hádegisbilið má athuga gular matartegundir eins og gulrót, eða rófusneið, banana, greipaldin, ananassafa, perur, heilhveitibrauð, korn, gulan ost eða egg.
Grænt fellur að kaffitíma eða kvöldmat eftir því hve snemma við tökum daginn. Þar kemur til greina grænt te, græn vínber, kíví eða avókadó, vænt salat og spírur eða gúrka á samlokuna. Svo væri hægt að hafa kvöldmatinn grænan og þá er um ótalmargt að velja. Grænt tengist hjartanu og ef við höfum byrjað daginn með því að styrkja eigin orku er kominn tími til að vera hlýlegur við aðra.
Seinni part dagsins kemur blátt og blágrænt inn í skalann og við eigum fátt fæðukyns þar nema berjasaft, plómur, bláberjamúffur eða blágresiste. Það má íhuga litina þegar drukkið er te yfir daginn. Þótt blöð jurta séu græn eru blómin í mismunandi litum. Eins má setja vatn á litaðar flöskur, bláar eða grænar, stilla þeim út í glugga og drekka vatnið, sem hefur þá dregið til sín litatíðni glersins úr sólarljósinu.
Fjólublá fæða tilheyrir kvöldinu og þá er helst að fá sér bláberjasúpu, berjasaft, vínber eða rauðsmárate.
Það er ekki alveg auðvelt að flokka mat eftir litum, sérstaklega þegar kemur að þeim fjólubláa. Mörkin á milli þess sem er blátt, fjólublátt eða rautt og rauðbrúnt eru ekki skýr. Heldur ekki milli þess rauða og gula eða gula og hvíta. Sagt er að rauð fæða gefi orku, sé skapbætandi, komi í veg fyrir sýkingar í blöðru og bæti blóðrásina. Má þar nefna radísur, jarðarber, epli og rifsber, rauðar berjasaftir, tómata og papriku. Gulrauð fæða á að styrkja hjarta, taugar og eitla. Þar má nefna gulrætur, appelsínur og aðra ávexti. Gul fæða á að virka vel á taugar, lifur og meltingarfæri. Þar má nefna gula papriku, rófur, sítrónur, banana og greipaldin. Græn fæða er sögð styrkja nýru og sjón, yngja líkamskerfið, skapa jafnvægi, vinna gegn liðagigt og hreinsa. Þarna er um auðugan garð að gresja eins og salat, beðju, steinselju og hvítkál, spergilkál, grænkál, agúrku, kúrbít og kryddjurtir. Fjólublá fæða þykir hamla mót krabbameini og vera góð fyrir heilastarfsemina. Þar má tilgreina vínber, bláber, eggaldin, rauðlauk, rauðkál, nýrnabaunir, rauðrófur, rófur, krækiber og söl og athugandi hvort fjallagrös, svartar ólífur, sólber og piparminta falli hér undir. Hvítt inniber alla liti. Sé litahring snúið nógu hratt sést aðeins hvítt. Hvítar radísur, sveppir, næpur, hvítkál, hvítlaukur, salatlaukur, sojaafurðir, kókosmjólk, mjöl og hvítar baunir fylla þennan flokk. Hunang, olíur og korn eru gullin fæða og það sem er gullið hefur ætíð þótt eðlara en það gula. Margt í sambandi við litina og fæðuna má kanna með pendúl. Óunnin mjólk og hreinar mjólkurafurðir eru miklir orkugjafar. Svo er hreinsuð vara eins og hveiti og sykur alveg hvít. Sumt af hvítu fæðunni er þannig næringarskert en annað inniheldur nokkurn veginn fullkomna næringu eins og móðurmjólkin. Hið eiginlega „regnbogafæði“ er þó skilgreint þannig að ávextir og grænmeti taki beint til sín hluta af litrófi sólarinnar en fæða úr dýraríkinu lúti öðrum lögmálum.
Grafík: Regnbogafæði, Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Litir náttúrunnar“, Náttúran.is: 16. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2007/11/09/litir-nttrunnar/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 9. nóvember 2007
breytt: 1. janúar 2013