Jarðarber
Þau litlu villtu eru sætust en erfitt að ná miklu af þeim. Stóru jarðarberin eru algengari. Þau vaxa ágætlega hjá okkur, bæði úti, ef þeim er skýlt svolítið, og inni ef þau fá pláss þar. Margir hirða ekki um að klípa af jarðstönglana, sem eru þó taldir draga kraft úr plöntunni. Af jarðstönglunum má auðvitað fá nýjar plöntur en þær þarf að endurnýja þegar þær sýna merki um þreytu og hætta að gefa mikið af sér. Ef ég fæ of mikið í einu til þess að við torgum þeim beint af plöntunni, og það hefur komið fyrir, þá finnst mér best að sjóða þau með sykri svolitla stund og ef sósan er of þunn má þykkja með ögn af maisenamjöli. Sósan fer svo ofan á vöfflur eða er notuð sem jarðarberjagrautur ef hún er þykk. Hún hverfur eins og dögg fyrir sólu.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum. Myndin er af jarðaberjum í byrjun júlí. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Jarðarber“, Náttúran.is: 27. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2007/08/15/jararber/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 15. ágúst 2007
breytt: 1. janúar 2013