Söfnun jurta
Um söfnun jurta gildir það sama og annars staðar í lífinu. Ef ég hrifsa harkalega í jurtirnar og ríf þær, af því ég er ergileg eða hef ekki meðferðis brúkleg verkfæri, finn ég að mér líður illa og ég fer að afsaka við þær meðferðina og reyna að vanda mig og hætta að flýta mér. Það þarf að umgangast plöntur eins og fólk og vera vingjarnlegur, þær skilja það. Þetta sambýli við plönturnar er svo sem ósköp blátt áfram og ég er ekkert sérlega hátíðleg við þær. Við erum bara nokkurs konar vinkonur. Ég spurði einu sinni mikla grasakonu hvaða jurtir hún tíndi helst. – Það sem er fljótlegt – svaraði hún að bragði. Það er þrælslega seinlegt að tína rjúpnalauf, svo það er varla notað nema spari, en mjaðjurtin vex í stórum breiðum svo fangið er orðið fullt á örskotsstund.

Að þurrka jurtir

Varast skyldi að þurrka jurtir þar sem sól skín á þær. En það má breiða yfir jurtirnar svo sólin nái ekki til þeirra. Mikilvægt er að þær þorni eins fljótt og auðið er svo myglubakteríur myndist ekki. Ef hitinn er of mikill skrælna þær hins vegar. Sumar jurtir eins og vallhumalsstöngla, mjaðjurt og brenninetlu er auðveldast að hengja upp í búntum þar sem loft leikur um og strjúka svo blöðin af stilkunum síðar. Blöð og blóm eru þurrkuð flöt á handklæðum eða grisjum, gjarnan við yl ofan á ofni eða þá á handklæði á gólfinu. Kristbjörg Kristmundsdóttir grasalæknir vindýurrkar sínar jurtir í litlum skömmtum í lérftspokaskjöttum, sem hún hengir út, þar sem loftar vel um og sól skín ekki og hún hristir til pokana. Loftið má ekki vera of rakt, en svo er hægt að skella pokunum, sem eru bara 1/4 fullir, einhvers staðar við yl til að fullþurrka ef þarf.

Til eru rafmagnsþurrkarar fyrir þá sem ekki þurrka mikið magn í einu. Þeir hafa tekið við af bakarofninum, sem líka má nota á lágum hita við svolítið opna hurðina, svo rakinn streymi út. Gamla aðferðin var að setja tilbúnar, muldar jurtirnar í pappírspoka og setja þá síðan í lokaða trékassa. Í dag notum við glerkrukkur en ekki er verra ef þær eru úr dökku gleri og þeir klóku mála glerkrukkurnar svartar. Þannig krukkur er þó vissara að setja ekki í uppþvottavél. Svo má geyma krukkur í dimmum skáp. Einu sinni hafði ég verið í útlöndum og ekkert getað tínt það árið. Eftir heimkomuna í september gekk ég yfir Rjúpnahæðina í Reykjavík og stakk í vasana á nankinsjakkanum einhverju af lyngi og rjúpnalaufi en gleymdi því. Fann þetta svo í fataskápnum um veturinn en þá hafði lyngið geymst ágætlega enda þurrt þegar það var tínt og gagnaðist í margan tebollann.

Hvað er hægt að gera með jurtir:

  • búa til krem
  • búa til sápur
  • búa til hunang, aukið blómum
  • búa til olíur
  • búa til hóstameðöl
  • búa til urtaveigar
  • búa til blómadropa
  • búa til teblöndur
  • búa til kransa
  • búa til körfur
  • búa til augnhlífapoka
  • búa til ilmsekki
  • búa til jurtakodda
  • búa til litunarvökva
  • teikna af þeim myndir
  • taka af þeim ljósmyndir
  • safna þeim í albúm með krökkunum
  • læra hvað þær heita
  • segja börnunum hvað þær heita
  • leita uppi vaxtarstaði
  • leita uppi ilmreyr
  • gera blómavín
  • frysta blómaskál fyrir næstu stórveislu
  • gera pappír úr jurtatrefjum
  • vefa diskamottur úr stönglum
  • flétta körfur
  • hugleiða á plöntur
  • skrifa um þær sögur
  • eða ljóð

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum. Ljósmynd: Rjúpnalauf (laufblöð Holtasóleyjarinnar) í skjóðu, Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
5. júlí 2013
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Söfnun og þurrkun jurta“, Náttúran.is: 5. júlí 2013 URL: http://nature.is/d/2007/11/09/sfnun-og-urrkun-jurta/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 9. nóvember 2007
breytt: 1. janúar 2013

Skilaboð: