Þegar arfi og annað illgresi, sem bóndi minn kallar réttilega harðgresi, er reytt upp getur sumt af því farið í safnhauginn en annað ekki. Allt illgresi sem ekki er búið að mynda fræ eða fjölgar sér með rótum á vitaskuld að fara í safnhauginn. Sumt af hinu getur farið djúpt undir tré, sem verið er að planta, og rotnað þar eða það má bera það í óræktarflög. Sýktar jurtir og erfitt illgresi eins og njólafræ fer þó beint á ruslahauginn. Endalaust var ég að rugla saman hvað væri vinsamlegt harðgresi og ætti að fara með sinni dýrmætu orku og viðloðandi gróðurmold í alvörusafnhauginn og hvað væri óæskilegt, svo sem fífla- og skriðsóleyjarrætur, húsapuntsrætur, elftingarrætur og fræberandi krossfífill.

Þegar ég hafði hlaupið í skyndi inn frá reytingu og kom út tveimur dögum eða viku seinna var ómögulegt að muna hvað var hvað. Svo datt ég niður á gott ráð. Hafði með mér tvær fötur, ljósa fötu undir harðgresi, sem átti að fara í góða safnhauginn, og svarta fötu undir það sem alls ekki átti að fara aftur í matjurtagarðinn, en mátti hugsanlega nota til uppgræðslu. Eftir að ég fann þetta ráð máttu föturnar gleymast úti og enginn vandi að henda reiður á hvað var hvað. Best er að gera gat á fötubotnana með bor, hníf eða nagla. Þá skiptir ekki máli þótt þær bíði, rigningarvatnið lekur niður og innihaldið verður stundum að mold í fötunni og ekkert fer til spillis eða fúlnar.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.
Grafík: Hvít fata, svört fata, Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.

Birt:
12. júlí 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Hvít fata, svört fata“, Náttúran.is: 12. júlí 2014 URL: http://nature.is/d/2007/11/09/hvt-fata-svrt-fata/ [Skoðað:18. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 9. nóvember 2007
breytt: 12. júlí 2014

Skilaboð: