Moltutunnu hvolftÞað er ótrúlegt hvað safnhaugagerð og flokkun hefur aukist á síðustu árum. Þeir sem eiga litla garða kaupa sér gjarnan moltukassa og fara á námskeið í notkun þeirra. Aðrir halda sér við trékassana og láta tímann vinna með sér. Hafa tvo eða þrjá kassa. Jurtakurlarar flýta þó mikið fyrir. Það er erfitt að kurla greinar og margir hætta því. Það má henda greinum í flög til að grasfræ og aðrar jurtir fái skjól undir þeim og nái að skjóta rótum. Kurlhrúga getur líka hýst aðra gesti, eins og hagamýs sem búa sér þar ból, en hún er ótrúlega fljót að hverfa í jörðina, birkigreinar fyrst en furugreinar miklu seinna.

Svo má hlaða greinum upp í hrúgur til að mynda tímabundið skjól fyrir nývöxt, ef nóg pláss er til þess. Heimiliskurlararnir eru hins vegar afbragð fyrir grænstöngla, sem fara eftir það í safnhauginn. Safnhaugur er einstaklingsbundinn því misjafnt er hvað fellur til hjá hverjum og einum. Hjá sumum er slegna grasið af blettinum aðalfóðrið en hjá öðrum verður grasið að fara á moldartipp bæjarfélagsins því það er orðið fræberandi, þegar það er loks slegið. Sama gildir með lauf. Það þarf að raka og hirða í snyrtilegum görðum en í villigarði sér það um sig sjálft og hverfur í svörðinn.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. 

Ljósmynd: Moltutunnu hvolft til að ná í moltuna, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
17. ágúst 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Safnhaugurinn“, Náttúran.is: 17. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2007/11/09/safnhaugurinn/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 9. nóvember 2007
breytt: 17. ágúst 2014

Skilaboð: