Hrútaber eru alvillt og farin að láta miklu meira á sér bera. Bæði af því kjarr og skógur hefur aukist og sauðkindin nær ekki að hreinsa láglendisgróðurinn. Þau eru svolítið beisk og því betri með kjöti en með sætindum. Þau fást ekki í verslunum og það gerir þau eftirsóknarverð. Helga Sigurðar telur þau ekki með, sem sýnir að þau hafi verið sjaldgæf áður meðan minna kjarr var.

Jarðarber, þau litlu villtu eru sætust en erfitt að ná miklu af þeim. Stóru jarðarberin eru algengari. Þau vaxa ágætlega hjá okkur, bæði úti, ef þeim er skþlt svolítið, og inni ef þau fá pláss þar. Margir hirða ekki um að klípa af jarðstönglana, sem eru þó taldir draga kraft úr plöntunni. Af jarðstönglunum má auðvitað fá nýjar plöntur en þær þarf að endurnýja þegar þær sýna merki um þreytu og hætta að gefa mikið af sér. Ef ég fæ of mikið í einu til þess að við torgum þeim beint af plöntunni, og það hefur komið fyrir, þá finnst mér best að sjóða þau með sykri svolitla stund og ef sósan er of þunn má þykkja með ögn af maisenamjöli. Sósan fer svo ofan á vöfflur eða er notuð sem jarðarberjagrautur ef hún er þykk. Hún hverfur eins og dögg fyrir sólu.

Krækiber og krækiberjasaft er ein af blá-fjólubláu íslensku fæðutegundunum. Gott er að hreinsa krækiber, um leið og komið er heim, með því að hella þeim milli íláta við húshorn þar sem svolítil gola leikur um. Til þess þarf bala og best er að leggja klút í botninn til að þau skoppi ekki til. Við að hella þeim varlega fþkur ruslið burt með golunni en berin, sem eru þyngri, falla í balann. Halda þarf berjaílátinu hæfilega hátt svo þetta takist vel. Mistakist það er ekkert annað að gera en að hella aftur enda gott að umhella tvisvar. Ef gerð er krækiberjasaft má þurrka svolítið af hratinu og nota í te. Það þykir stemmandi. Einu sinni á ári að minnsta kosti er til þess vinnandi að halda við hinum gamalkunna þjóðarrétti, skyrhrærunni. Ég efast um að nokkur uppskrift sé til að þessum rétti allir kunnu að búa hann til. En hann getur gleymst samt.

Skyrhræra
Hræra kekkjalausan, góðan hafragraut saman við skyr. Blanda varlega krækiberjum út á og bera fram með mjólk eða rjóma. Sykur er smekksatriði.

Úr bókinni Ætigarðurinn - handbók grasnytjungsins eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin fæst keypt hér á Náttúrumarkaðinum.

Ljósmyndir: Krækiber, hrútaber og jarðaber, Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
14. ágúst 2013
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Hrútaber, jarðarber og krækiber“, Náttúran.is: 14. ágúst 2013 URL: http://nature.is/d/2007/11/09/hrtaber-jararber-og-krkiber/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 9. nóvember 2007
breytt: 14. mars 2014

Skilaboð: