Sumarsalat á Íslandi er oftast gert úr tómötum, gúrkusneiðum og blaðlauk, steinselju eða fersku kryddi og svo salatblöðum. En hjá þeim sem ekki rækta tómata eða gúrkur og vilja nota eigin framleiðslu gæti sumarsalatið verið svona: Salatblöð af ýmsu tagi, basilíkublöð, kerfill eða önnur villijurtarblöð sem enn finnast, steinselja, grisjunargulrætur, dill, síðasta næpan fínt skorin, graslaukur eða graslauksblóm og morgunfrúar- eða fjólublöð yfir allt saman. Gott er að særa agnarögn framan af gulrótarkálinu til að fá steinefnin sem þar vaxa og setja með í salatið.

Þessi uppskrift byrjar með salatblöðum en endar hvergi. Svo geta fundist súrublöð, fíflablöð sem eru að spretta í annað sinn eftir slátt, eða langtsprottinn karsi, sem bæta má í ef stilkarnir eru hreinsaðir frá því þeir eru orðnir seigir. Út á sumarsalat er nóg að hafa á borðinu ólífuolíu og balsamedik eða sítrónu og láta hvern og einn ráða hvað hann vill setja yfir salatið. Ef ekkert er sett yfir salatið í skálinni og afgangur verður, geymist hann ágætlega í kulda til næsta dags sé lok sett yfir.

Úr bókinni Ætigarðurinn - handbók grasnytjungsins eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin fæst keypt hér á Náttúrumarkaðinum.

Ljósmynd: Grænt salat, eigin ræktun 9. ágúst 2011. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
16. ágúst 2013
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Salat“, Náttúran.is: 16. ágúst 2013 URL: http://nature.is/d/2007/11/09/salat/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 9. nóvember 2007
breytt: 14. mars 2014

Skilaboð: