Haustið, hvenær byrjar það? Þegar vötn og lygnar ár verða sterkblá eins og til að endurspegla trega himinsins. Þessi hausttregi minnir á sársætan söknuð konu sem er að eldast og það er gott og lífið er ljúft, en einstöku sinnum stingur upp kollinum endurminning frá munaðarfullum léttleika æskunnar. Þó maður væri heimskur þá – það var eitthvað við það.

Um haustjafndægur er eins og allar vættir fari á stjá í rökkurbyrjun. Eins og álfur eða smánykur leynist í skugganum undir hverjum steini. Vilborg Dagbjartsdóttir, skáld og kennari, hafði aðra viðmiðun og sagði í gullfallegu ljóði að haustið væri komið þegar lítil börn birtust á götunum með skólatöskur á bakinu. Það má líka miða við fyrstu laufin sem breyta um lit og verða gul og rauð og sýna sína sönnu liti þegar blaðgrænan hefur dregið sig í hlé.

Samkvæmt gamla dagatalinu byrjar tvímánuður í 18. viku sumars og um leið hefst meyjarmerkið, sem er tengt jörðu, uppskeru og meltingu. Við söfnum saman og byrjum að ganga frá. Þá er samkvæmt gregorísku almanaki komið fram að 23. ágúst. Það er eitthvað undarlegt við fyrsta hauststorminn. Honum fylgja sterkar tilfinningar. Þeir sem taka þétt á púlsi ferðahelganna segja að strax eftir verslunarmannahelgina minnki umferðin.

Hauststormur er sterkur fyrirboði þess sem koma skal. Hann slítur laufin, sérstaklega fer hann illa með stóru laufin á öspunum. Birki og víðilauf eru minni og þessu vanari. En undir niðri leynist líka einhver notalegheitakennd í storminum. Eins og þessi stóra náttúra ýti okkur í skjól. Skjól sem er í senn takmarkað, hlýtt og kunnuglegt. Ýti okkur inn á við í heim bókmennta, mynda, tónlistar og hugarflugs. Nú orðið þekkja sum okkar sýndarheiminn betur en náttúruna úti fyrir með víðar flesjur, móa og sanda, blá fjöll og síbreytileg ljósbrigði.

Það tók mig langan tíma að játa fyrir sjálfri mér að mér finnst svolítið leiðinlegt að tína ber. En nú er það búið. Það kom til af því að nokkur haust í röð var kalt og frostið og napurleikinn kom strax í ágústlok, berin varla þroskuð og yfirfullt að gera í vinnunni, líka um helgar. Garðurinn beið og samviskubitið fór að naga. Eftir þessa játningu fór það að renna upp fyrir mér að önnur ástæða kynni að liggja að baki áhugaleysi mínu við berjatínslu. Þegar ég var barn voru rifsberjarunnar með elstu trjánum sem uxu í garðinum. Þau voru hlaðin berjum sem stóðu langt fram á haust. Fuglar voru fáir á þessu berangursholti og berin fengu að vera í friði. Nú bþ ég í skógarlundi. Þrestirnir eru búnir að hreiðra um sig og tóku ekkert mark á kettinum, sem var þó af alræmdri veiðikattaætt. Þeir pilla af hvert ber um leið og það roðnar. Stundum fæ ég þó ögn af sólberjunum sem þeir eru ekki eins sólgnir í og stikilsber vilja þeir ekki. Ég er sem sagt í nokkurs konar afneitunarfýlu út í fuglana. Fólk er farið að verja berin sín með akrþli eða neti.

Í Findhorn í Skotlandi hef ég séð fuglafælu sem reyndar var notuð á vorin til að verja fræbeð. Þá voru hengdir tómir tölvudiskar í bandi yfir beðin, sem snerust í vindinum og áttu að virka fráhrindandi á allt fljúgandi. Berjaflóran er verða skrautlegri. Af þeim villtu má nefna hrútaber, bláber, krækiber, reyniber, einiber og jarðarber. Ræktuðu runnaberin hafa einkum verið rifsber og sólber. Nú er komið fljótvaxnara og stærra kvæmi af sólberjum. Aðrir runnar hafa bæst í hópinn með betri tíð og meira skjóli, svo sem bláberjarunnar, stikilsber og hindber. Stórvaxin jarðarber vaxa úti og inni og vínber í skálum. Þetta er álitlegur hópur og breikkar matarflóruna á haustin. Ef rabarbarinn er talinn með eigum við, þrátt fyrir allt, örlítið af innlendum ávöxtum.

Blessi drottinn berin á því lyngi. Hart og lengi harpan mín syngi. Helga Sigurðar, sem með óþrjótandi elju og dugnaði reyndi að fá Íslendinga til að elda vel og borða hollan og ferskan mat, hvetur fólk til að borða ber daglega þann stutta tíma sem þau eru fáanleg til að birgja sig upp af vítamínum fyrir veturinn. Hún skrifar bókina „Grænmeti og ber allt árið“ á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar og þá urðu menn að búa að þeim vítamínum sem fengust úr náttúrunni.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.

Myndin er af hausthlið á Náttúruspilunum (sjá) Grafík: Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.

Birt:
23. ágúst 2013
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Haustið“, Náttúran.is: 23. ágúst 2013 URL: http://nature.is/d/2007/08/15/hausti/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 15. ágúst 2007
breytt: 14. mars 2014

Skilaboð: