Nýuppteknar kartöflur.Rósmarín er besta krydd í heimi með kartöflum. Góður kokkur og frábær ræktunarmanneskja, sem var í fjölskyldunni um tíma og kom þá með í útilegu, sat lengi á hækjum sér yfir pönnu eitt þungbúið síðdegi og var að sýsla með kartöflur úti fyrir tjaldinu og ég var að velta fyrir mér hvernig hún nennti þessu. Eftir að hafa fengið að smakka hugsaði ég aldrei svona aftur og reyni að hafa rósmarínkartöflur við og við.

Rósmarínkartöflur
Fyrst er að sjóða kartöflurnar. Þær mega ekki molna sundur, svo ef þær eru stórar er vissara að skera þær í teninga svo þær hvorki ofsjóði né missjóði. Svo á að taka pönnu, setja á hana olíu og marinn hvítlauk og láta meyrna með söxuðum, ferskum rósmarínblöðum. Setja svo kartöflurnar á pönnuna og láta smásteikjast þangað til kartöflurnar eru tilbúnar og setja þá yfir svolítið meira fínsaxað rósmarín. Þetta má líka gera í ofni og láta þá hvítlaukinn meyrna þar í eldföstu móti og síðan forsoðnar kartöflur og krydd og baka allt að 40 mínútur og snúa kannski einu sinni svo bakist jafnt. Einföld fljótaskrift á þessum rétti er auðvitað að henda rósmarínkvisti út í kartöfluvatnið eða setja kaldar, soðnar kartöflur á pönnu með olíu, hvítlauk, ögn af salti og rósmarín, sem jafnvel má vera þurrkað þótt þá sé það ekki eins spennandi, og láta þetta hitna og smásteikjast. Rósmarín er sígrænn runni og það er þess virði að reyna að koma honum til í vernduðu umhverfi. Hann getur þolað svolítið frost, en honum hættir til að gefast upp á vorin, þegar hitnar og kólnar á víxl, og drepst þá.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. 

Ljósmynd: Nýuppteknar kartöflur, ljósm. Guðrun A. Tryggvadóttir.

Birt:
9. mars 2015
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Rósmarínkartöflur “, Náttúran.is: 9. mars 2015 URL: http://nature.is/d/2007/11/12/kartflur/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 12. nóvember 2007
breytt: 9. mars 2015

Skilaboð: