Af Grasa-Þórunni
Eftirfarandi frásögn lýsir aðferðum grasalækna snemma á 20. öld. Guðfinna Hannesdóttir frá Hólum í Stokkseyrarhreppi er fædd 1906. Viðtalið var skrifað niður gegnum síma 1993.
Á Loftstöðum í Flóa bjó systurdóttir Þórunnar, Ragnhildur Gísladóttir. Guðfinna segir svo frá: – Ragnhildur fékkst nokkuð við grasalækningar, en var þó meira við búsýslu. Ég lá í brjósthimnubólgu (en hún var oft undanfari lungnaberkla) um hásumar þegar Þórunn kom þangað að tilvísun frænku sinnar, til að tína grös. Það var mikið af grösum á Hólum áður en allt var lagt undir ræktun. „Það er ekki hægt að horfa á þessa ungu stúlku svona á sig komna. Hún er eins og uppmálaður dauðinn en þyrfti að komast út í sólskinið,“ sagði Þórunn. Þetta fékk hljómgrunn hjá fólkinu. Læknirinn var þá eiginlega búinn að gefast upp og hélt að það þyrfti að stinga mig. Það var komið vatn og ég veit ekki hvað en hún bremsaði á þetta allt saman og brenndi mig með steinolíu. Það var aldeilis svakalegt. Þetta voru miklar vítiskvalir að þola það í 10 klukkutíma. Þessi brunaplástur var utan um allt holið.
Hún vætti ullarstykki í steinolíunni, síðan kom vatnsþétt stykki og utan um það stórt handklæði. Ég var eins og uppþembd brúða. Það var hræðilegt og þegar Þórunn var búin að ganga frá plástrinum fór hún að leggja mér lífsreglurnar, að ég eigi að liggja í þessu í 10 klukkutíma. Þá fer hún út um holt og hæðir að tína græðandi jurtir og sjóða smyrsl, sem átti að græða þetta og hún kallaði lífgrös. Hún biður um að sé strokkað smjör en passa að láta ekki salt í það. Gróðrarsmjör hét það þegar kýrnar voru komnar út og lifðu eingöngu á grænum grösum. Allt var þetta gert, því það vildu allir gera það sem þeir gátu og Þórunn kvað rímur til að hafa ofan af fyrir mér, svo ég skyldi hafa þetta út.
Svo þegar þetta er tekið af er eitt flagsár umhverfis allt holið en hún kemur með smyrsl, sem hún hefur verið að sjóða og var í því lauf af gulvíði, maríustakkur og vallhumall, hún sagði mér hvað það var, en ég man ekki þá fjórðu – gæti hafa verið hrútaberjalyng. Hún sauð þetta í smjöri og svolitlu vatni. Svo vætti hún þunnt stykki í þessu og lagði yfir sárið. Þetta áttu að vera mestu græðijurtirnar og það var hásumar. Ég ætla ekki að lýsa því, ég vildi óska að allir fengju jafn góð græðismyrsl á sárin og ég fékk þarna. Eftir eina viku var allt gróið og ég komin út á tún. Það var afskaplega gaman að tala við hana. Eftir þetta kom hún á hverju sumri og við fórum oft að tína með henni grös og það var eins og kennslustund, hún var alltaf að kenna manni og leiðbeina þó maður læri nú ekki svona í lausu lofti. Hún þekkti allar jurtir og vissi hvað var við hverju.
Í samtalinu kom einnig fram að Þórunn sauð öl til að hressa Guðfinnu. – Hún sauð töluvert á kút og þetta var drukkið eins og sælgæti. Hún sagði að hún skyldi sjóða þetta til að hressa mig með því, það væri svo mikið af bætiefnum í því. Guðfinna heldur að í ölinu hafi verið mikið af hrútaberjalyngi, mjaðjurt og vallhumli. Ölið batnaði við geymslu og gerjaði ekki en það þurfti nokkuð mikinn sykur, best var að hafa kandíssykur. Þórunn sagðist vita að Guð hefði skapað okkur á jörðinni og skapað öll grösin, sem myndu lækna alla sjúkdóma sem kæmu fyrir. Það er nú svona með þessa ungu lækna – það er fleira til en að stinga og skera, sagði Guðfinna að lokum en hún er enn stálslegin á tíræðisaldri.
Úr bókinni Ætigarðurinn - handbók grasnytjungsins eftir Hildi Hákonardóttur.
Myndin er af vallhumli lagður til þurrkunar, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Af Grasa-Þórunni“, Náttúran.is: 13. september 2014 URL: http://nature.is/d/2007/11/09/af-grasa-runni/ [Skoðað:28. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 9. nóvember 2007
breytt: 18. september 2014