Uppruni jólanna
Frá alda öðli hafa flestar þjóðir, sem spurnir eru af, haldið meiriháttar hátíð um þetta leyti árs. Frumorsök hátíðahalds á þeim tíma hlýtur að vera sólhvörfin, hvort heldur það er skammdegið eða hin rísandi sól, nema hvorttveggja sé. Menn kunna að hafa fært fórnir, haft í frammi töfrabrögð, tendrað elda eða á annan hátt reynt að flýtja og tryggja endurkomu sólarinnar. Á hinn bóginn hafa menn fagnað því, þegar séð varð, að hún hafði enn einu sinni hafið sigurgöngu sína um himinhvolfið, einsog margir Íslendingar gera raunar enn með sólarkaffinu, þótt í smáum stíl sé.
Hitt er annað mál, að samfara því sem mennirnir og mannfélagið þróast, atvinnuhættir og lífsvenjur breytast, koma nýir þættir inn í hátíðahöldin svo sem ýmiskonar frjósemisdýrkun á vissum dýrum og trjám, síðar ýmisleg dýrkun guða og vætta, minning forfeðranna o.fl., uns frumorsök hátíðarinnar er að mestu gleymd.
Í Rómaborg tíðkaðist t.d. hátíð löngu fyrir Krists burð, sem nefndist Saturnalia kennd við frjósemisguðinn Satúrnus. Hófst hún um eða skömmu eftir miðjan desember og stóð í nokkra daga. Þá var étið, drukkið, leikið og dansað og svo til öll vinna féll niður.
Önnur rómversk hátíð, Compitaliae, var haldin í byrjun janúar, og var hún mjög svipuð í sniðum, lifað í vellystingum praktuglega nokkra daga. Tilvera þessara tveggja eldfornu hátíða ætti að styðja þá kenningu, sem áður var getið, að menn hafi haldið hátíð bæði til að hjálpa sólinni yfir örðugasta hjallann, þ.e. rétt fyrir sólstöður, og svo aftur, þegar hún var greinilega tekin að hækka á lofti. Nýárshátíðin tók svo við hlutverki hinna tveggja smám saman eftir að nýársdagurinn var færður til 1. Janúar árið 153 f. kr. Það er mjög tekið til þess, hvernig allur stéttamunur hvarf, meðan þessar hátíðir stóðu yfir, einkum munurinn á frjálsum mönnum og þrælum. Þrælarnir nutu næstum óskorðast frelsis og húsbændur þeirra tilreiddu þeim hátíðamáltíð, gengu um beina, drukku og skemmtu sér með þeim einsog jafningjum. Þetta atriði um tímabundið afnám stéttamunar og einskonar niðurlægingu húsbænda og hetja virðist eiga sér ævagamlar rætur og bregður fyrir hjá mörgum forný jóðum.
Sumir hafa viljað sjá í þessu erfðavenjur frá gömlum stéttlausum samfélögum, sem með þessu fengju að njóta sín stöku sinnum á ári sem einskonar uppbót fyrir þær búsifjar, sem yfirstéttin endranær veitti hinum lægra settu því að vitaskuld féll allt í sama arið aftur að hátíðinni lokinni. Þetta væri þá hliðstæða við það, þegar vondir ráðherrrar ala fallaega um sjómenn og verkalýð á hátíðisdögum þeirra. En kannski er hér einfaldlega um hið alkunna fyrirbæri að ræða, þegar drukknir heldrimenn gefa sig á tal við smælingja og drekka dús með þeim, en þekkja þá síðan ekki daginn eftir , ef runnið er af þeim.
Einhverntíma í skammdeginu löngu fyrir kristnitöku hafa menn á Norðurlöndum einnig heldið hátíð, og nefndist hún jól. Sumir hafa viljað bera brigður á tilveru slíkrar heiðinnar hátíðar á þeirri forsendu, að allar heimildir um jólahalda í heiðni séu frá kristnum tíma og ekki annað en ágiskun kristinna sagnaritara einsog Snorra Sturlusonar.
En orðið jól eitt sér er reyndar næg sönnun þess, að einhver hátíð hafi átt sér stað um þetta leyti mmeðal ýmissa germanskra þjóða. Hví í ósköpunum ella skyldu Norðurlandaþjóðir og reyndar fleiri um tíma hafa tekið upp þetta einennilega og óskýranlega orð um fæðingarhátíð Herrans Krists? Í öllum öðrum kristnum löndum Evrópu hefur nafn hennar tengsl við fæðingu Jesú: Christmas, Kristmessa á ensku, Weihnachten, næturnar helgu á þýsku, Nativitas Domini, fæðing Herrans á latínu. Noel skyllt natalis, þ.e. fæðing á frönsku.
Jól heita á skandinavískum málum jol eða jul og í finnsku eru til lánsorðin joulu, sem þýðir jól og juhla, sem merkið hátíð almennt. Mun finnskan hafa tekið þau upp eigi síðar en um 900. Í ensku er til yule, sem þýðir jól og á sér fjölda fyrirrennara í engilsaxneskju. Áður var minnst á gotneska mánaðarheitið jiuleis, sem er í rauninni smaa orðið og okkar ýlir.
Þrátt fyrir tilraunir margra sprenglærðra orðsifjafræðinga hefur hann enn eki tekist að finna viðhlítandi skýringu á frummerkingu orðsins. Til gamans skulu nokkrar nefndar. Þeir sem trúðu því, að jólin væru frá upphafi kristin hátíð, vildu leiða það af hebreskunni jalad, þ.e. “hefur fætt, svo sem það skyldi meina Kristi fæðing”. Aðrir vildu draga það af nafni Júlíusar Sesars. Sumir héldu það væri komið af grískunni úúlos, þ.e. “unglinga fyrsta skeggvexti, því að héla og hrímfall um þorratíðir sé því eigi ólíkt”. Þá skal það að sumra dómi þýða sama og hjól, “því þá sé hringur ársins fullur og byrji nýja veltu”. Páll Vídalín lögmaður taldi það samstofna við orðið öl og merkja veislu.
Á síðari tímum hafa menn m.a. komið með þá kenningu, að jól væri fleirtala af él og merkti éljatími, því þá sé venjulega mest um snjókomu. Sumir Norðmenn hafa haldið því fram, að hér væru um að ræða nafn á njólategund einni, sem algeng sé í Noregi og heitir þar jol eða jul. Hafi njóli þessi verið fulltrúi jarðargróðursins á jólunum. Aðrir hafa talið, að jól væri í reynd hi sama og latneska orðið joculus, sem þýðir skemmtun, og af sama stofni væri hið enska jolly og franska joli. Jól merki því gleðihátíð.
Einna helst mun nú hallast að því í ljósi hreinnar orðsifjafræði, að frummerking orðsins sé fórn. Það hefur a.m.k. þá samsvörun við páskana, að nafn fórnarlambsins á hebresku, pesakh, færðist yfir á hátíðina sjálfa.
Varðandi upphaflega merkingu og tilgang hinnar heiðnu jólahátíðar hafa aðallega verið uppi þrjár kenningar: að hún hafi verið sólarhátíð til að fagna endurkomu sólarinnar, hátíð drauga og vætta, sem þá eru mest á ferli og þá um leið minningarhátíð um látna forfeður og loks frjósemishátíð til að auka frjómátt jarðarinnar.
Einsog áður var drepið á, skal því hér haldið fram, að upprunalegast tilefni þessarar hátíðar séu sólhvörfin. Allir hinir þættirnir og raunar miklu fleiri hafi síðan á mörgum öldum dregist inn í og blandast saman með ýmsum hætti.
Mjög skiptar skoðanir hafa verið um tímasetningu hinna fornu jóla. Hafa aðallega verið uppi tvær meginkenningar: nálægt miðjum janúar eða miðjum desember eftir okkar tímatali. Sumir hafa gengið svo langt ða halda stíft fram ákveðnum dögum: 13 desember og 13 janúar. En slík nákvæmni er auðvitað út í hött, því að á þeim tíma hefur hið rómverska tímatal a.m.k. verið mjög lítt þekkt á Norðurlöndum.
Höfuðröksemdin fyrir fyrri tímasetningunni er mánaðarnafnið ýlir, sem eðlilegast sýnist að merki jólmánuð. Það hlýtur frá hreinu málfræðisjónarmiði að vera mjög gamalt, a.m.k. frá því fyrir 800, og samsvarandi orð í gotnesku, mánaðarnafnið jiuleis a.m.k. frá 4. Öld, en gæti hæglega verið frá því löngu fyrir Krists burð.
Hin aðalröksemdin er frásögn Snorra Sturlusonar í Hákonar sögu góða, sem er raunar elsta rituð heimild um tímasetningu heiðinna jóla:
“Hann setti það í lögum að hefja jólahald þann tíma sem kristnir menn, og skyldi þá hver maður eiga mælis öl, en gjalda fé ella, og halda heilagt, meðan öl ynnist. En áður var jólahald hafið hökunótt, það var miðsvetrarnótt, og haldin þriggja nótta jól.”
Þegar þetta er ritað, er hið forníslenska tímatal búið að vera í föstum skorðum a.m.k. 100 ár. Samkvæmt því var miður vetur 12. – 13. Janúar. Varla er vafi á, að Snorri fylgir þessum tímareikningi. En hvað vissi hann nákvæmlega, þótt margvitur væri, um tímatalsreikning á dögum Hákonar nær 300 árum fyrr? Engin viðunandi skýring hefur fundist á merkingu orðsins hökunótt. Þess má og geta, að ýlir er ekki nefndur í Snorra Eddu, en hinsvegar í elsta riti íslensku, sem fjallar um tímatal, Bókarbót.
Hér verður haft fyrir satt, að um tvær hátíðir hafi verið að ræða með mánaðar milllibili líkt og í Róm. Önnur hafi byrjað með vaxandi eða fullu tungli í mánuðinum ýli skömmu fyrir vetrarsólhvörf. Tilgangur hennar hafi verið m.a. að hvetja sólina á endasprettinum og hjálpa henni að gegn öllu illu með hermigaldri. Þá voru illar vættir á ferð, og hvaða hugmyndir gat fók ekki haft á þeim tímum? Það segir, m.a.s. í Snorra Eddu, að mikill óvættur, úlfurinn Skoll, elti sólina og vilji gleypa hana. Síðari hátíðin hefur þá verið til að fagna endurkomu sólarinnar, þegar hún var ótvírætt tekin að hætta á lofti.
Líklegra er af málfræðilegum rökum, að fyrri hátíðin hafi heitið jól, enda er við seinni dagsetninguna einmitt komið að Þorravlóti, hafði það verið staðreynd í forneskju. En á einhverju skeiði kann jólanafnið að hafa færst yfir á miðsvetrarblótið. Verið getur, að gömlu jólin hafi þá verið fjölskylduhátíð, meðan ættsveiitn bjó í þorpi sínu. En þegar fólkinu fjölgaði og byggðin tók að dreifast, á risu líka upp höfðingjar og smákongar. Þeir hafa efnt til stórblóta, þar sem þegnarnir lögðu til vistirnar. Það eru þesskonar jól, sem Snorri hefur haft óljósar spurnir af, enda kemur einmitt fram í frásögn hans, að hver maður skyldi eiga mælis öl, en gjalda fé ella.
Sáralitlar heimildir eru um heiðið jólahald í framkvæmd. Elstu dæmi geta um að “drekka jól”, enda var öleign lögboðin. Þá er og drukkið “til árs og friðar”. Oft er getið um heitstrenginar manna í jólaveislum ýmist til vígaferla, landvinninga eða kvennafars. Í einni elstu heimildinni er getið um, að konungur vilji “heyja Freys leik” um jól. Freyr var samkvæmt Snorra Eddu og einsog nafnið bendir til guð frjósemi og ásta, og því er sennilegt, að um sé að ræða einhverskonar helgileik, til að töfra fram frjósemi jarðar á næsta ári, eða jafnvel kynsvall í sama tilgangi, því það er algeng skoðun meðal frumstæðra þjoða, að frjósemi í mannlífinu kalli á frjósemi í náttúrunni. Loks er frá því greint, að Freysgöltur og “sonargöltur” væru leiddir inní höll konunga jólaaftan. Lögðu menn hendur yfir burst þeirra og strengdu heit. Hér virðist um einhverka svínadýrkun að ræða en svínið er alþekkt frjósemistákn sakir hinnar miklu viðkomu sinnar.
En þessar rytjulegu frásagnir upplýsa ósköp lítið og þó líklega helst um siði frá síðasta skeiði heiðninnar. Þess er ekki einu sinni getið, að menn hafi neytt nokkurs átmatar í veislunni, enda hefur sjálfsagt ekki þótt þurfa að taka það fram, því naumast hafa þeir lifað á öli einu saman í þrjá daga.
Úr Sögu daganna eftir Árna Björnsson.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Uppruni jólanna“, Náttúran.is: 3. desember 2014 URL: http://nature.is/d/2007/04/12/uppruni-jlanna/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 12. apríl 2007
breytt: 6. desember 2014