Vonir standa til að efni úr íslenskum hreindýramosa geti nýst krabbameinssjúklingum með því að minnka lyfjaskammta þeirra og draga úr lyfjaónæmi.

Vísindamenn við Læknadeild og Lyfjafræðideild Háskóla Íslands hafa greint virkni efnasambands úr hreindýramosa á starfsemi krabbameinsfruma. Nýlega var birt grein um rannsókn þeirra á efnasambandinu í tímaritinu PLos ONE sem er virt á sviði líf- og læknavísinda. Þar er farið yfir það hvernig efnasambandið hefur áhrif á krabbameinsfrumur.

„Það hefur áhrif á orku og efnaskipti í krabbameinsfrumunum sjálfum og ákveðin frumulíffæri innan frumunnar með því að breyta sýrustigi innan frumunnar. Þetta er mjög athyglisvert hvernig svona einfalt efnasamband getur haft svona mikil áhrif á frumulíffæri í krabbameinsfrumu," segir Margrét Bessadóttir, lyfjafræðingur og doktorsnemi við HÍ.

Hún segir rannsóknir með efnið enn á frumstigi.

„Vonir standa til að efni sem þessi og önnur geti hjálpað til í baráttunni við að finna ný krabbameinslyf, þá kannski helst í samvirkni með öðrum krabbameinslyfjum, til að hægt sé að minnka skammta á þeim og koma í veg fyrir ónæmi sem er vaxandi vandamál," segir Margrét.

Horfa á myndskeið með frétt.

Ljósmynd: Hreindýramosi (hvíti mosinn á miðri myndinni), Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
17. desember 2012
Höfundur:
Fréttablaðið
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Fréttablaðið „Hreindýramosi gagnast í baráttu við krabbamein“, Náttúran.is: 17. desember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/12/17/hreindyramosi-gagnast-i-barattu-vid-krabbamein/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: