Unnið er að úttekt á ástandi rotþróa við sumarhús á Þingvöllum til að freista þess að koma í veg fyrir að mengun berist út í vatnið. Aukin mengun frá umferð við vatnið og á höfuðborgarsvæðinu hefur einnig áhrif.

Aukin mengun í Þingvallavatni býr til kjöraðstæður fyrir þörungagróður og ógnar þar með tærleika vatnsins. Mengunin gæti að hluta til tengst slæmu ástandi rotþróa við sumarbústaði á Þingvöllum.

"Því er ekki að leyna að það eru að verða hraðfara breytingar á Þingvallavatni," segir Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum. "Auðvitað er vatnið í mjög góðu ástandi en það eru merki um hraðfara breytingar."

Unnið hefur verið að úttekt á ástandi rotþróa við þau 80 sumarhús sem eru á Þingvöllum til að rannsaka þátt þeirra í aukinni mengun, segir Ólafur Örn. Niðurstöður rannsóknarinnar eru væntanlegar í kringum áramót.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að niðurstöður hjá þeim hluta sumarhúsa sem búið er að vinna úttekt á bendi til þess að talsverðar úrbætur þurfi að gera víða, enda rotþrær víða komnar til ára sinna.

"Sumarbústöðum hefur fjölgað gríðarlega við vatnið, en einnig hefur dvöl lengst og viðvera aukist í bústöðunum. Þetta eru orðin svo vegleg hús og vel búin að fólk er þarna meirihluta ársins," segir Ólafur Örn. Þetta geti haft áhrif á mengun frá rotþróm.

Í drögum að stöðuskýrslu fyrir vatnasafn Íslands, sem Umhverfisstofnun hefur nú gert opinber, er vitnað til rannsóknar á Þingvallavatni sem gerð var á fimm ára tímabili. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna aukinn styrk köfnunarefnis í vatninu. Ólafur Örn segir að þegar köfnunarefni aukist í vatninu á sama tíma og hitastig þess hækki vegna hnattrænnar hlýnunar hafi það svipuð áhrif á þörungagróðurinn og áburður hafi á sprettu túna.

Þingvallavatn hefur hingað til verið afar tært vegna lítils þörungagróðurs. Aukist hann verulega mun það hafa þau áhrif að tærleiki vatnsins minnkar, segir Hilmar Malmquist, vatnalíffræðingur og forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs, sem vann að rannsókn á Þingvallavatni.

Ljóst þykir að aukin mengun í Þingvallavatni eigi rætur að rekja til fleiri þátta en mengunar frá rotþróm. Köfnunarefni berst einnig í vatnið vegna umferðar um þjóðgarðinn, sem hefur aukist verulega vegna nýlegra vegbóta á Lyngdalsheiði. Mengunin berst líka með veðri og vindum, frá umferð og iðnaði á höfuðborgarsvæðinu og meginlandi Evrópu.

Þingvallavatn einstakt á heimsvísu

"Þingvallavatn er ekki bara merkilegt á íslenskan mælikvarða. Á heimsmælikvarða er þetta stórmerkilegt vatn vegna tærleikans og þar með blámans á vatninu," segir Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum. Hann segir að vatnið sé líka einstakt vegna lífríkisins, fjögurra tegunda af bleikju og eina af urriða, auk marflóa sem hafa lifað ótrúlega langan tíma.

Þingvellir eru á heimsminjaskrá UNESCO á menningar- og sögulegum grundvelli og mengun mun engin áhrif hafa á það. Ólafur Örn bendir þó á að áhugi sé á því að vinna að því að Þingvellir og Þingvallavatn komist á heimsminjaskrá á náttúrufræðilegum forsendum. Komi það til greina muni mengun og viðbrögð við henni skipta verulegu máli.

Ljósmynd: Þingvallavatn, ©Árni Tryggvason.

Birt:
Dec. 13, 2012
Höfundur:
Brjánn
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Brjánn „Hraðfara breytingar ógna tærleika Þingvallavatns“, Náttúran.is: Dec. 13, 2012 URL: http://nature.is/d/2012/12/13/hradfara-breytingar-ogna-taerleika-thingvallavatns/ [Skoðað:June 12, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: