4° hækkun líkleg
Alþjóðasamfélagið hefur náð samstöðu um að tveggja gráðu hlýnun á jörðinni á þessari öld sé hámark þess sem þolanlegt sé, en þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til eða heitið eru allsendis ófullnægjandi. Verði ekkert frekar aðhafst er líklegt að hlýnunin verði allt að fjórar gráður til næstu aldamóta. Þessu er haldið fram í nýrri skýrslu Alþjóðabankans sem birt var í gær.
Afleiðingar verða þá meðal annars eftirfarandi:
Hækkun sjávarborðs verður fimmtán til tuttugu prósent meiri nærri miðbaug en á norðlægustu eða suðlægustu breiddargráðum. Það hefur í för með sér aukna tíðni sjávarflóða á svæðum þar sem margar af stærri borgum heims standa. Hitabeltisstormar færast í aukana og verða tíðari, sem leiðir til eyðileggingar á uppskeru og mannvirkjum í meira mæli en nú þekkist.Við það bætist tíðari og alvarlegri þurrktímabil sem enn dregur úr uppskeru og leiðir til rýrnandi aðgangs að fersku vatni.
Súrnun sjávar ógnar kóralrifjum og raunar öllum kalkberandi sjávarlífverum.
Rússland gefur tóninn
Hitabylgjur sem fram til þessa hafa talið vera líklega til eiga sér stað örfáum sinnum á öld verða tíðari og langdregnari. Hitabylgjan í Rússlandi í hitteðfyrra gefur kannske tóninn um meira og verra sem koma skal. Hún er talin hafa kostað fimmtíu og fimm þúsund manns lífið, dregið úr uppskeru um fjórðung frá meðaltali, valdið skógareldum á einni milljón hektara og kostað eitt prósent landsframleiðslu Rússlands. Hafa ber þá í huga að Rússland ætti að vera betur í stakk búið til að takast á við áföll af þessu tagi en flest þróunarríki. Raunar telja skýrsluhöfundar að hitastig á borð við það sem varð í hitabylgjunn i í Rússlandi kunni að verða venjulegt ástand í löndum nær miðbaug.
Ekki dómsdagsspá
Skýrsla Allþjóðabankans er ekki dómsdagspá í þeim skilningi að þeirri sviðsmynd sem þar er dregin upp sé lýst sem óumflýjanlegri. Með markvissum aðgerðum til að draga úr útblæstri er líklega enn unnt að halda hlýnuninni innan tveggja gráða markanna. Meðal annars leggur Alþjóðabankinn til að einni billjón dollara sem nú er varið til niðurgreiðslna á olíu verði varið í staðinn til þróunar nýrra og umhverfisvænna orkugjafa.
Birt:
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið „4° hækkun líkleg“, Náttúran.is: 21. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/21/4-haekkun-likleg/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.