Við eignumst alls konar hluti um dagana, sem er merkilegt vegna þess að þegar við fæðumst eigum við ekki neitt, í það minnsta ekki peninga. Og allir þessir alls konar hlutir kosta peninga. En þegar betur er að gáð fæðumst við ekki eins allslaus og okkur hættir til að halda. Þegar við fæðumst eigum við nefnilega tíma. Tíminn er eini gjaldmiðillinn okkar í lífinu, eins konar spilapeningar sem við fáum afhenta á byrjunareit þessa mikla spils. Þessa spilapeninga getum við ekki talið. Við vitum sem sagt aldrei hvað er mikið eftir af þeim. En flest okkar fá heilan helling af þessum dýrmæta gjaldmiðli í vöggugjöf, sjálfsagt ein 80 ár að meðaltali.

Tímanum sem við fengum úthlutað við fæðingu getum við skipt út fyrir næstum hvað sem er, þ.á.m. fyrir peninga, sem við getum svo aftur skipt út fyrir alls konar hluti. Þess vegna er bæði hollt og rökrétt að meta verðmæti hluta í klukkustundum frekar en krónum.

Kannski keypti ég mér farsíma fyrir þremur árum á 30 þúsund krónur. Kannski er hann enn í góðu lagi, en samt úreltur af því að vinir mínir eru allir búnir að kaupa sér nýrri og fullkomnari farsíma með „spennandi nýtingarmöguleikum“. Peningalega er síminn minn einskis virði, ég get ekki selt hann, þrjátíuþúsundkallinn sem ég keypti hann fyrir er orðinn að engu. Og fyrst síminn minn er einskis virði get ég kannski bara lagt honum og keypt mér nýjan eins og vinirnir.

Þrjátíuþúsundkallinn er afskrifaður. Þegar grannt er skoðað var þessi þrjátíuþúsundkall heldur ekki hið raunverulega verð sem ég galt fyrir símann. Hann var bara ávísun sem ég fékk í skiptum fyrir 20 klukkustundir af tímaskammtinum sem ég fékk í vöggugjöf, þ.e.a.s. ef ég gef mér að ég hafi unnið mér inn 1500 krónur á tímann eftir skatta. Þessar stundir get ég ekki endurheimt. En ég á val um það hvort ég vilji láta aðrar 20 klukkustundir, já eða kannski 40, af vöggugjöfinni fyrir nýjan síma, eða hvort ég vilji nota þann tíma í annað. Og þegar og ef ég horfi á eftir gamla símanum mínum í ruslið (sem má náttúrulega ekki) eða í endurvinnslukerið fyrir rafeindatækjaúrgang, þá er mér hollt að hafa í huga að þarna liggur hálf vika frá því í október 2009.

Hugsum áður en við hendum - tímanum okkar. Sóun efnislegra gæða fækkar gæðastundunum í lífinu.

(Þessi föstudagspistill er skrifaður í tilefni Nýtnivikunnar (European Week for Waste Reduction (EWWR) sem byrjar á morgun - og með vísan í eina af uppáhaldsbókunum mínum, Tio tankar om tid eftir Bodil Jönsson).

Birt:
16. nóvember 2012
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Að henda tímanum sínum“, Náttúran.is: 16. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/16/ad-henda-timanum-sinum/ [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 6. mars 2014

Skilaboð: