Landspítalinn kynnir nýja umhverfisstefnu og umhverfisáætlun
1.300 tonn af rusli falla til á Landsspítalanum á hverju ári. Rúmlega 1.277 tonn af sorpi féllu til við starfsemi Landspítalans í fyrra. 23 prósent fóru í endurvinnslu. Spítalinn notar rafmagn á við 4.600 heimili og heitt vatn á við 1.600.
Landspítalinn ætlar að grípa til ýmissa aðgerða til þess að minnka áhrif sín á umhverfið strax á næsta ári, samkvæmt nýrri umhverfisstefnu og umhverfisáætlun sem var kynnt í gær.
„Stefnan er vandlega undirbúin. Það komu margir að henni og við höfum líka verið að læra af reynslu erlendis frá. Þau virtu sjúkrahús sem við berum okkur saman við hafa gert frábæra hluti í umhverfismálum. Þau eru búin að sýna og sanna að tækifæri til að gera vel á sjúkrahúsum eru mikil. Aðgerðirnar bæta umhverfið en bæta oft líka heilsu starfsfólks og sjúklinga og leiða jafnvel líka til hagræðis. Við viljum gera enn þá meira af þessu," segir Birna Helgadóttir, verkefnisstjóri hjá Landspítalanum.
Stefnt er að því að minnka umfang rusls sem fer ekki í endurvinnslu um 400 kíló á dag með því að auka flokkun úrgangs og minnka notkun á einnota vörum. Nauðsynlegt er í mörgum tilvikum að nota einnota vörur vegna sýkingavarna, en í öðrum tilvikum verður þeim skipt út fyrir margnota.
Þá ætlar spítalinn að gera vistvænni innkaup og veita betri upplýsingar um umhverfismálin. Nú þegar hefur pappírsnotkun minnkað um nær helming frá árinu 2009. Spítalinn ætlar að grípa til hvetjandi aðgerða til þess að fá fleiri starfsmenn til að koma til vinnu með öðrum hætti en keyrandi.
Mynd: Birna Helgadóttir verkefnisstjóri umhverfismála hjá Landsspítalanum í viðtali við Stöð 2, sjá viðtalið og fréttina á Stöð 2 hér.
Birt:
Tilvitnun:
Fréttablaðið „Landspítalinn kynnir nýja umhverfisstefnu og umhverfisáætlun“, Náttúran.is: 13. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/13/landspitalinn-kynnir-nyja-umhverfisstefnu-og-umhve/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.