Í bloggpistli sem ég skrifaði fyrir skemmstu komst ég að þeirri augljósu niðurstöðu að jarðarbúar gætu ekki viðhaldið velferð sinni öllu lengur með því að ganga sífellt meira á auðlindir jarðar. Hagvöxtur sem byggir á nýtingu náttúruauðlinda umfram árlega framleiðslugetu er fræðilega útilokaður til lengdar, eða með öðrum orðum „eðlisfræðilegur ómöguleiki“. Eina leiðin inn í framtíðina er sem sagt samfélag án slíks hagvaxtar. Reyndar þurfum við að ganga lengra en það, þegar haft er í huga að eins og staðan er í dag þarf mannkynið 1,51 jörð til að framfleyta sér. Við þurfum sem sagt að stefna að hjöðnun þangað til þessi tala er komin niður í 1,00. Eftir það snýst málið um að halda stöðugleikanum.

Matarkúr en ekki svelti!
Hugmyndin um hjöðnun er framandi þeim sem hafa allt sitt líf búið við trúna um að hagvöxtur sé nauðsynlegur. Þegar hjöðnun ber á góma dettur flestum líklega í hug einhvers konar sultarástand og samfélagslegar hamfarir. En þegar betur er að gáð þarf sú ekki að vera raunin. Hjöðnun er nefnilega miklu frekar sambærileg við matarkúr en svelti. Það er vel hægt að komast af með miklu minni efnisleg gæði án þess að velferð eða vellíðan minnki. Þvert á móti gæti velferð og vellíðan aukist til muna! Ofát er ekki munaður.

Leiðin til hjöðnunar
Í 2012-bindi bókarinnar State of the World skrifar Erik Assadourian áhugaverða hugvekju um hjöðnun undir yfirskriftinni „The Path to Degrowth in Overdeveloped Countries“. Þar færir hann rök fyrir því að ekki sé nóg að draga lítils háttar úr þeim neikvæðu áhrifum sem athafnir manna hafa á umhverfið, heldur þurfi að breyta hagkerfinu frá grunni. Það verkefni sé hreint ekki einfalt, þar sem menning Vesturlandabúa sé í raun byggð á trúnni á hagvöxt – og stjórnmálaleiðtogar fórni höndum í hvert sinn sem samdráttur verður í efnahagslífinu. Engin ein lausn sé til, heldur þurfi að vinna markvisst og skipulega á mörgum vígstöðvum.

Fortölur duga skammt
Eins og Erik bendir á er vonlítið að fá fólk til að draga úr neyslu með því einu að hvetja til þess í ræðu og riti, heldur verði stjórnvöld og atvinnulífið að stýra vali fólks. Þetta sé í raun hægt að gera með nákvæmlega sömu aðferðum og beitt hefur verið síðustu 50 ár til að stuðla að aukinni neyslu og hagvexti. Einfalt skref í rétta átt væri að hætta umhverfisskaðlegum niðurgreiðslum og styrkjum og beina þeim gríðarlegu fjármunum sem þannig losna í nýja og sjálfbærari farvegi, svo sem í styrki til lífrænnar landbúnaðarframleiðslu í smáum stíl og húsnæðisstyrki til fólks sem býr í litlum og sparneytnum íbúðum. Stundum þarf ekki nema litla breytingu á sköttum til að ná fram verulegri breytingu á hegðun fólks. Þegar settur var 5 centa skattur (rúmlega 6 ísl. kr.) á plastpoka í Washington 2010 hrundi t.d. plastpokasala úr 22,5 milljónum poka niður í 3 milljónir á einum mánuði! Samt skilaði skatturinn 2 milljónum dollara á einu ári, sem hægt var að nota til að hreinsa gríðarlegt magn af rusli úr Anacostia-ánni sem rennur í gegnum borgina.

Ofurskattar, Tobinskattar og auglýsingaskattar
Önnur einföld og áhrifarík leið til að breyta neyslumynstri fólks er tilfærsla á tekjusköttum. Þetta er auðvitað ákaflega viðkvæmt mál, en dæmin sýna að þetta er enginn „pólitískur ómöguleiki“. Þannig fóru jaðarskattar tekjuhæstu Bandaríkjamannanna upp í 94% á seinnistríðsárunum. Líklega létu menn þetta yfir sig ganga vegna þeirrar hættu sem þjóðinni var talin stafa af stríðinu, en í sjálfu sér er ekkert flókið að sýna fram á að umhverfisógnir nútímans stefni bandarísku þjóðaröryggi í meiri hætti en seinni heimsstyrjöldin á sínum tíma. Því væri lærdómsríkt að kynna sér hvernig stjórnvöld kynntu og réttlætu ofurskattana upp úr 1940.

Ofurskattar eru ekki endilega eina eða besta leiðin til að stýra neysluhegðun. Svonefndir Tobinskattar gætu einnig lyft Grettistaki hvað þetta varðar, en þar er um að ræða tiltölulega lítinn skatt á fjármagnsflutninga, svo sem verslun með gjaldeyri eða jafnvel hlutabréf, skuldabréf og skuldatryggingar. Á Íslandi hefur Guðfríður Lilja Grétarsdóttir alþingismaður verið einn helsti talsmaður slíkrar skattlagningar, en hugmyndin virðist einnig njóta vaxandi fylgis innan Evrópusambandsins. Tobinskattar eru ekki aðeins til þess fallnir að stuðla að ábyrgum viðskiptaháttum í fjármálageiranum, heldur gefa þeir einnig möguleika á verulegri fjáröflun til að stuðla að sjálfbærari neysluháttum.

Enn eitt dæmi um tækifæri sem liggja í breyttri skattlagningu er sérstök skattlagning auglýsinga, þar sem sérstakur aukaskattur væri lagður á auglýsingar um óhollustu, umhverfisskaðlegar vöru og eyðslufreka bíla. Tekjum af þessu mætti svo verja til kynningar og markaðssetningar neyslugrennri lífshátta.

Hvað á að gera við peninginn?
Einboðið er að verja tekjum af öllum þessum nýju sköttum til útgjalda sem styðja við uppbyggingu nýs hagkerfis, auka jöfnuð og milda áhrif breytinganna á þá hópa sem verða verst úti í þeim. Þetta getur m.a. falið í sér uppbyggingu ýmissrar grunnþjónustu og þjálfun nýrrar færni, auk endurbóta á innviðum sem gera fólk minna háð einkabílum, bæta möguleika þess til samveru, hreyfingar og útivistar o.s.frv. Um leið mætti fjármagna bókasöfn með mjög útvíkkað hlutverk, þar sem auk bóka væru lánuð út leikföng, tól og tæki sem draga myndu úr þörf fólk til að „eignast allt“.

Jöfnun vinnutímans
Mikilvægur liður í þeirri umbreytingu sem virðist ekki aðeins óumflýjanleg, heldur líka til þess fallin að auka lífsgæði fólks, er jafnari dreifing vinnustunda. Það er ekkert náttúrulögmál að allir vinni 40 tíma á viku eða þaðan af meira, enda er raunin víða sú að meðalvinnuvikan í Evrópu væri nær 20 tímum ef allri vinnu væri dreift nokkurn veginn jafnt á þá sem á annað borð teljast vinnufærir. Jöfnun vinnutímans myndi ekki aðeins bæta stöðu þeirra sem minnsta vinnu höfðu fyrir, heldur myndi hún einnig auka lífsgæði þeirra sem vinna mest og draga úr neikvæðum áhrifum þeirra á umhverfið, ef marka má rannsóknir sálfræðinga á fylgni þessara þátta. Jöfnun vinnutíma er ekki einföld í framkvæmd en stjórnvöld geta þó beint þróuninni í þá átt, þ.á.m. með ákvæðum um frítíma, fæðingarorlof o.m.fl. Þarna geta tekjuskattar líka komið við sögu. Um leið er losað um vinnuafl sem getur tekið til við að gera heimilið svolítið meira sjálfbjarga, hvort sem það er gert með matjurtaræktun, viðhaldi heimafyrir eða með öðrum hætti. Hér geta stjórnvöld enn látið til sín taka með fræðslu og námskeiðahaldi um holla og hagnýta tómstundaiðju af ýmsu tagi.

Matjurtagarðurinn
Matjurtaræktun heima fyrir eða í félagsgörðum er ákjósanlegt dæmi um þróun sem verður nær sjálfkrafa þegar fólk hefur rýmri tíma og/eða minni fjárráð. Slík ræktun getur átt stóran þátt í að auka matvælaöryggi og efla félagslega samstöðu. Sem dæmi um þetta má nefna þá þróun sem orðið hefur á Kúbu eftir hrun Sovétríkjanna. Í Havanna hafa t.d. sprottið upp rúmlega 26.000 matjurtagarðar þar sem framleidd eru 25.000 tonn af matvælum á ári. Og á Grikklandi hafa orðið til 32.000 ný störf í landbúnaði frá því að efnahagur landsins hrundi, á sama tíma og almennt atvinnuleysi hefur aukist úr 6% í 18%.

Sprotar af svipuðu tagi hafa vaxið upp sums staðar í Evrópu á síðustu misserum, án þess þó að nokkur neyð hafi rekið á eftir því, svo sem í Frakklandi og Hollandi þar sem stjórnvöld hafa aðstoðað samfélög við að byggja upp getu til aðgerða, svo sem með upprifjun á verklagi sem hafði gleymst á mesta hagvaxtarskeiðinu. Þannig hafa orðið til tækifæri til sjálfshjálpar og samhjálpar, og um leið hafa skapast ný staðbundin störf, samheldni samfélaga hefur aukist og geðheilsa batnað.

Máttur trúfélaga
Trúfélög geta leikið stórt hlutverk í því að þoka mannkyninu út úr þeim ógöngum sem það hefur komið sér í. Óhætt er að segja að trúfélögum hafi tekist misvel upp hvað þetta varðar, en þegar haft er í huga að um 80% jarðarbúa telja sig trúaða er ljóst að þarna liggur gríðarlegur máttur til góðra verka.

Félagsleg markaðsfærsla er lykilorð
Leiðin í átt að hjöðnun er vissulega ferðalag á móti straumi eins og staðan er í dag, enda gríðarlegum fjármunum varið til að markaðssetja nýjan varning og trúna á að hann færi fólki hamingju. Vel skipulögð félagsleg markaðsfærsla er lykilorð í þessu samhengi. Nú þegar má reyndar benda á nokkur einkar vel heppnuð verkefni í þá veru, svo sem verkefnið Story of Stuff, sem opnað hefur augu margra fyrir ógöngum neysluhyggjunnar. Þá hafa samtökin New Economics Foundation útbúið stutta heimildarmynd sem sýnir fram á hversu ómögulegur endalaus vöxtur er í reynd. Í myndinni er hamstur notaður sem dæmi og sýnt hvað myndi gerast ef hann héldi áfram að vaxa á sama hraða eftir að fullorðinsaldri er náð. Hamsturinn myndi þá vega 9 milljarða tonna á eins árs afmælinu og gæti étið alla kornframleiðslu heimsins á einum degi án þess að verða saddur. Í myndinni er komist að þeirri niðurstöðu, að „það sé ástæða fyrir því hvers vegna hlutir í náttúrunni vaxi aðeins þar til vissri stærð er náð. Hvers vegna halda þá hagfræðingar og stjórnmálamenn að hagkerfið geti vaxið endalaust“? Myndir á borð við Avatar og WALL-E hafa einnig gert sitt til að benda fólki á afleiðingar vaxtar og neysluhyggju. Tækifæri af svipuðu tagi er víðar að finna, svo sem í vinsælum tölvuleikjum og í hverju því sem fólk beinir athygli sinni að á hverjum tíma. Hér gildir að vera frumlegur í fræðslustarfinu í stað þess að boða breytta tíma með óbreyttum aðferðum í hópi jábræðra, og láta þar við sitja.

Af sjálfsdáðum eða tilneyddur?
Spurningin er ekki sú hvort við séum á leið inn í hjöðnunarskeið. Spurningin er eingöngu sú hvort náttúran neyði okkur inn á þá braut – og þá líklega ekki með neinum vettlingatökum – eða hvort að við sjáum tækifærin til að feta brautina af sjálfsdáðum og auka þannig velferð okkar og lífshamingju um leið og við gefum barnabörnunum tækifæri.

(Að mestu byggt á: Erik Assadourian (2012): The Path to Degrowth in Overdeveloped Countries“. Í State of the World 2012: Moving Toward Sustainable Prosperity. Island Press, Washington DC, USA). Bls. 22-37).

Birt:
12. nóvember 2012
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Hjöðnun framundan!“, Náttúran.is: 12. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/12/hjodnun-framundan/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: