Vegna frétta af umræðum á Alþingi í gær vill umhverfis- og auðlindaráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri:

Veðurstofa Íslands spáði ítrekað stormi og snjókomu á Norðurlandi í aðdraganda óveðurs sem gekk yfir landshlutann dagana 9. - 11. september síðastliðinn.

Fyrsta spá um veðrið kom fram í textaspá tæpri viku áður en óveðrið reið yfir, eða þriðjudaginn 4. september þar sem spáð var hvassri norðanátt, rigningu eða slyddu norðan- og austantil mánudaginn 10. september.  Næstu daga breyttist spá fyrir umræddan mánudag ekki ýkja mikið á milli spátíma, en upplýsingar urðu þó ítarlegri þegar nær dró í tíma. Þannig voru upplýsingar um 15 - 23 metra vindstyrk komnar inn í spár á fimmtudagskvöld 6. september auk þess sem áfram var spáð slyddu eða rigningu.

Á laugardagsmorgni 8. september var fyrsta stormviðvörunin gefin út fyrir Norðurland og voru stormviðvaranir í gildi fram á þriðjudag 11. september. Klukkan 11 á sunnudag var gefin út spá sem gilti fyrir næstu 48 klukkustundir þar sem varað var við stormi á Norðurlandi eystra, auk snjókomu eða slyddu til fjalla en rigningu á láglendi. Síðdegis á sunnudeginum 9. september var svipuð spá gefin út.

Af ofangreindu má sjá að Veðurstofa Íslands spáði óveðrinu með margra daga fyrirvara. Eftir því sem nær dró urðu þessar spár nákvæmari, en þó var spáin í meginatriðum svipuð. Athuganir sýna að staðbundið varð veðrið heldur verra en textaspár sögðu til um og hiti um 1-2 gráðum lægri en spár gerðu ráð fyrir. Snjóaði því víða á láglendi þar sem spáð hafði verið rigningu eða slyddu.

Birt:
7. nóvember 2012
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Óveðri spáð með margra daga fyrirvara“, Náttúran.is: 7. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/07/ovedri-spad-med-margra-daga-fyrirvara/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: