Skapandi auðlindasýn - Málþing í aldarminningu Kristjáns Friðrikssonar
Málþing í aldarminningu Kristjáns Friðrikssonar verður haldið í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins þ. 9. nóvember kl. 14:00.
Í ár eru liðin 100 ár frá fæðingu Kristjáns Friðrikssonar iðnrekanda. Hann var sveitadrengur sem kom til borgarinnar og lét að sér kveða á uppgangsárum lands og þjóðar, þekktur fyrir hugmyndaauðgi og framkvæmdagleði. Hann gaf út Útvarpstíðindi, skrifaði bækur m.a. um hagfræði, grasafræði og myndlist, setti á stofn klæðagerðina Últímu og síðar vefnaðarverksmiðju og ferðaðist um land til að ræða sjálfbæra fiskveiðistjórnun og auðlindanýtingu. Í fjölbreytilegu starfi hans mótaðist sýn sem enn í dag má kallast frjó.
- Á málþingi í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands verður farið yfir framsýnar hugmyndir Kristjáns Friðrikssonar á sviði auðlindahagfræði og sjálfbærni, list- og iðnhönnunar, skapandi skólastarfs og útgáfu.
- Haraldur Ólafsson mannfræðingur rifjar upp hugmyndir Kristjáns um farsældarríki og manngildisstefnu;
- Daði Már Kristófersson hagfræðingur fjallar um hugmyndir Kristjáns um fiskveiðistjórnun, auðlindaskatt, líf- og hagkeðju sem kallast á við sjálfbærnihugsjón samtímans;
- Ingibjörg Jóhannsdóttir skólastjóri Myndlistaskólans í Reykjavík ræðir skapandi skólahugmyndir Kristjáns, lífrænt skólastarf og samþættingu hugar og handar; Friðrik Daníelsson efnaverkfræðingur segir sögu af seinustu iðnaðaráformum Kristjáns;
- Oddný Eir Ævarsdóttir rithöfundur gluggar í Útvarpstíðindin og uppeldisbækurnar.
Jón Sigurðsson, fyrrverandi rektor á Bifröst, vinur og samstarfsmaður Kristjáns setur hugmyndir og æviatriði hans í samhengi og stýrir fundi.
Boðið verður upp á kaffi að dagskrá lokinni og vonast eftir líflegum umræðum!
Aðgangur frír og allir hjartanlega velkomnir!
Birt:
Tilvitnun:
Oddný Eir Ævarsdóttir „Skapandi auðlindasýn - Málþing í aldarminningu Kristjáns Friðrikssonar“, Náttúran.is: 7. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/07/skapandi-audlindasyn-malthing-i-aldarminningu-kris/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.