Lifandi markaður opnaði á dögunum nýja glæsilega verslun og veitingastað í Fákafeni 11 í Reykjavík. Á morgun verður haldin opnunarhátíð frá kl. 17:00-19:00 með opnunartilboðum og líflegum vörukynningum. Þetta er stærsta verslunin til þessa og má segja að hún muni þjóna sem nokkurskonar flaggskip fyrir Lifandi markað. Fyrir utan eitt breiðasta úrval lífrænna vara sem í boði er á Íslandi er þar er að finna stóraukið úrval af ferskvöru, eins og grænmeti, ávöxtum, kjöti, fiski og brauði. Þar að auki er veitingastaður, sem sérhæfir sig í gómsætum, hollum réttum, og fyrsta flokks kaffihús á staðnum.

Með þessu er Lifandi markaður að staðsetja sig sem alvöru valkost á matvörumarkaði þar sem fólk getur komið og verslað áhyggjulaust fyrir heimilið – allt á einum stað. Lifandi markaður selur einungis gæðavörur úr hollum og góðum hráefnum sem stuðla að góðri heilsu og vellíðan. Vörurnar eru að stærstum hluta lífrænt ræktaðar eða íslensk framleiðsla og án allra óæskilegra aukefna. Þetta er þriðja verslun Lifandi markaðar en fyrir eru verslanir og veitingastaðir í Borgartúni og við Hæðasmára í Kópavogi.

Auknar kröfur neytenda
„Þetta eru spennandi tímar, fólk leggur meiri og meiri áherslu á gæði þeirrar fæðu sem það er að neyta og gefa börnunum sínum. Þetta finnum við hjá LIfandi markaði. Á hverju ári vex viðskiptavinahópurinn jafnt og þétt. Við erum sífellt að sjá hjá okkur ný andlit og við finnum einfaldlega að neytendur eru farnir að gera auknar kröfur um að vita hvaðan maturinn kemur og hvað hann inniheldur. Við viljum svara því kalli.“ segir Arndís Thoraresen framkvæmdastjóri Lifandi markaðar.

Andlitslyfting hjá Lifandi markaði
Verslanirnar voru allar teknar í gegn fyrir skemmstu en það var Leifur Welding sem sá um útlitsbreytinguna í samvinnu við Lifandi markað. Leifur hannaði líka nýju verslunina í Fákafeni. Hið einstaka útlit Lifandi markaðar mun vafalaust koma flestum á óvart en það er gjörólíkt því sem Íslendingar hafa vanist á matvörumarkaði og meira í takt við það sem gerist erlendis. „Við fylgjumst mjög vel með því hvað er í gangi erlendis í þessum geira og reynum að vera í farabroddi með nýjar og góðar vörur. Í hönnunarferlinu var lögð áhersla á að gera matarinnkaupin ánægjuleg og þægileg til að auðvelda fólki að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl."

Á sama tímabili var nafni fyrirtækisins breytt úr Maður lifandi í Lifandi markaður. „Lifandi markaður endurspeglar betur það sem við stöndum fyrir. Við viljum leggja okkar að mörkum, með öllu sem við gerum, að stuðla að góðri heilsu og vellíðan í sátt við umhverfið.” segir Arndís Thorarensen að lokum.

Ljósmyndir: Úr nýju verslun LIfandi markaðar í Fákafeni 11.

Birt:
6. nóvember 2012
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Lifandi markaður opnar nýja glæsilega verslun í Fákafeni“, Náttúran.is: 6. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/06/lifandi-markadur-opnar-nyja-glaesilega-verslun-i-f/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: