Út er komin ný reglugerð um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna. Með henni er komið á nýju kerfi um flokkun og merkingu efna og efnablandna á heimsvísu. Reglugerðin byggir á reglugerð Evrópusambandsins nr. 1272/2008 (CLP reglugerð) sem tók gildi 2009 og eru íslenskir framleiðendur og innflytjendur nú þegar farnir að fylgja henni að nokkru leyti. Nýjar merkingar munu síðan ryðja sér til rúms á efnavörum á næstu árum.

Nú þegar reglugerðin tekur gildi þarf að flokka og merkja hrein efni samkvæmt reglugerðinni og skal endurmerkingu hreinna efna sem fyrir eru á markaði vera lokið 1. desember 2012. Allar efnablöndur sem settar eru á markað eftir 1. júní 2015 eiga þá að vera komnar með nýjar merkingar en annars fyrir 1. júní 2017.

Með reglugerðinni verður sú áherslubreyting að flokkun efna verður framvegis að meginhluta á ábyrgð framleiðenda og innflytjenda efna. Breytingin hefur í för með sér að breyta þarf listum yfir hættuleg efni þar sem framvegis verður bæði vísað til opinbers lista og lista sem byggir á framlagi framleiðenda og innflytjenda efna með tilkynningum til Efnastofnunar Evrópu. Forsendur flokkunar efna og efnablandna breytast en flokkun efnablandna kemur til með að byggja fremur á eiginleikum blöndunnar sjálfrar en einstökum innihaldsefnum hennar. Áhrifamesta breytingin er á merkingunni og útliti hættumerkjanna á meðan að texti hættu- og varnaðarsetninga verður með svipuðu sniði og áður. Á sama tíma eiga sér stað breytingar á innihaldi öryggisblaða varðandi flokkun og merkingu efna sem kynntar verða sérstaklega.

Grafík: Hættumerkin eru alþjóðleg tákn um hættu af völdum efna samkvæmt hinu alþjóðlega GHS flokkunar- og merkingakerfi efna.

Birt:
6. nóvember 2012
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Uppruni:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Ný reglugerði um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna“, Náttúran.is: 6. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/06/ny-reglugerdi-um-flokkun-merkingu-og-umbudir-efna-/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: