Vatn í listum er viðfangsefni hádegisfyrirlesturs í Þjóðminjasafninu, miðvikudaginn 7. nóvember kl. 12:10. Þar mun Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands fjalla um vatn í myndlist og Karólína Eiríksdóttir, tónskáld fjalla um vatn í tónlist.

Í fyrirlestrum fyrr á árinu hefur verið fjallað um stærð og eðli vatnsauðlindarinnar á Íslandi annars vegar og í Afríku hins vegar þar sem vatn er víða af skornum skammti. Þá hefur verið fjallað um samspil vatns og jarðvegs, vatnsnotkun Íslendinga og þá vá sem getur stafað af vatni.

Vatn hefur þó ekki eingöngu hagnýtt gildi fyrir manninn heldur hefur vatn í öllum mögulegum myndum verið listamönnum innblástur í gegn um tíðina. Þannig er vatn algengt viðfangsefni myndlistarmanna og heilu tónverkin hafa verið samin um vatn.

Á fyrirlestrinum verða sýndar myndir af listaverkum þar sem vatn kemur við sögu og tóndæmi leikin.

Fyrirlesturinn hefst kl. 12:10 og er áætlað að hann standi til kl. 13:00. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.

Þetta er síðasta erindið í röð hádegisfyrirlestra sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Umhverfisstofnun, Veðurstofa Íslands, Landgræðsla ríkisins og Íslenska vatnafræðinefndin efna til í tilefni af evrópsku ári vatnsins.

Ljósmynd: Vatnsgárur, Hugi Ólafsson. Umhverfisráðuneytið.

Birt:
5. nóvember 2012
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Vatn í tónlist og myndlist“, Náttúran.is: 5. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/05/vatn-i-tonlist-og-myndlist/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: