Norrænu umhverfisráðherrarnir efla samstarf um sjálfbæra þróun
Norrænu umhverfisráðherrarnir hittust þann 31. október m.a. til þess að ræða sjálfbæra þróun og eftirfylgni við Rio+20 leiðtogafundinn síðastliðið sumar. Ráðherrarnir eru sammála um að styrkja UNEP og starfs þess að grænu hagkerfi. Þeir ræddu einnig aðgerðir til að takmarka skammlífa loftslagsáhrifavalda í framhaldi af norrænni yfirlýsingu frá því síðastliðið vor.
Ráðherrarnir lögðu á fundinum áherslu á mikilvægi þess að nota grænt hagkerfi sem verkfæri til þróunar í iðnvæddum og þróunarríkjum. Umhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna UNEP gegnir þar mikilvægu hlutverki og norrænu ríkin eru meðal helstu stuðningsaðila þess að efla UNEP á alþjóðavettvangi, og umhverfisráðherrarnir staðfestu þann stuðning á fundi sínum.
„Með því að styrkja umhverfisáætlun UNEP eflist vinnan við að þróa grænt hagkerfi og ný græn störf að auki. Aukin skýrslugjöf stórra fyrirtækja um umhverfismál er jafnframt mikilvæg til að þróunin verði í rétta átt. Á norrænum vettvangi viljum við fylgja þessu eftir og ekki síst efla starfið í tengslum við umhverfismerkið Svaninn, sem stuðlar að því að styrkja markað fyrir umhverfisvænar vörur og þjónustu", sagði Bård Vegar Solhjell umhverfisráðherra Noregs að loknum fundi.
Í mars sendu umhverfisráðherrarnir frá sér Svalbarða yfirlýsinguna, þar þeir mörkuðu stefnu um hvernig norrænu ríkin geta stuðlað að minni losun skammlífra loftslagsáhrifavalda.
„Mikilvægt er að ganga lengra, í norrænu og norðurskauts samhengi, í því að minnka losun skammlífra loftslagsáhrifavalda, þar sem þeir skipta miklu fyrir loftgæði og heilbrigði okkar, en einnig fyrir loftslagsáhrif og matvælaframleiðslu almennt", sagði Lena Ek umhverfisráðherra Svíþjóðar eftir ráðherrafundinn í Helsinki. Málið verður ofarlega á baugi í formennskuáætlun Svía í Norrænu ráðherranefndinni árið 2013.
Mikilvæg skilaboð frá Rio+20 var þörfin á því að efla skýrslugjöf fyrirtækja um sjálfbærni og að þróa aðferðir í viðbót við þær sem notaðar eru til að mæla verga landsframleiðslu til þess að endurspegla á réttan og yfirvegaðan hátt ástand þjóðfélagsins og umhverfisins.
Ráðherrarnir voru sammála um að Norðurlönd eigi og geti lagt sitt af mörkum til þessa og að þörf væri á þverfaglegu samstarfi á þessu sviði. Á formennskutíma Svía mun Norræna ráðherranefndin stefna að því að halda ráðstefnu um efnið.
Ráðherrarnir samþykktu einnig framkvæmdaáætlun fyrir norrænt umhverfissamstarf á árunum 2013-2018. Áherslusviðin eru græn þjóðfélagsþróun, líffræðilegur fjölbreytileiki, eiturefni hættuleg umhverfinu, loftslagsmál og loftgæði.
Ráðherrarnir samþykktu jafnframt að veita auknu fjármagni til umhverfismerkisins Svansins árið 2013 til að efla þróun nýrra vöruhópa með áherslu á loftslagsvæna framleiðslu.
Að fundi loknum hittu ráðherrarnir umhverfisnefnd Norðurlandaráðs til að ræða Rio+20 og framtíðarsýn fyrir umhverfismerkið Svaninn.
Ljósmynd: Norrænu umhverfisráðherrarnir samþykktu á fundi sínum þann 31. október nýja framkvæmdaáætlun fyrir norrænt umhverfissamstarf á árunum 2013-2018. áherslusviðin eru græn þjóðfélagsþróun, líffræðilegur fjölbreytileiki, eiturefni hættuleg umhverfinu, loftslagsmál og loftgæði. Ljósmyndari: Magnus Fröderberg/norden.org
Birt:
Tilvitnun:
Norden - Norræna ráðherranefndin „Norrænu umhverfisráðherrarnir efla samstarf um sjálfbæra þróun“, Náttúran.is: 31. október 2012 URL: http://nature.is/d/2012/10/31/norraenu-umhverfisradherrarnir-efla-samstarf-um-sj/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.