Í morgun kom út hjá Norrænu ráðherranefndinni hefti með 18 frásögnum af reynslu lítilla fyrirtækja í smærri byggðum á Norðurlöndunum sem fengið hafa vörur sínar eða þjónustu vottaða með Norræna umhverfismerkinu Svaninum eða Umhverfismerki Evrópusambandsins. Stefán Gíslason hjá UMÍS ehf. Environice safnaði frásögnunum og bjó þær til útgáfu, en verkið var fjármagnað af Smásamfélagahópi Norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfismál. Heftið er fyrst um sinn aðeins gefið út á sænsku, en vonast er til að fjármagn fáist í upphafi næsta árs til þýðingar og útgáfu á íslensku og færeysku.

Margir álíta að umhverfisvottun á borð við Norræna svaninn sé aðeins fyrir stærri fyrirtæki með marga starfsmenn og mikla veltu. Frásagnirnar í heftinu sýna hins vegar að vottun af þessu tagi er raunhæfur kostur, jafnvel fyrir örsmá fyrirtæki. Minnsta fyrirtækið sem kemur við sögu í heftinu er Junno & Unno Hylderne i Óðinsvéum. Eigandinn Margareta Norrgård er eini starfsmaðurinn og sinnir fyrirtækinu reyndar aðeins í hálfu starfi meðfram húsmóðurhlutverkinu. Hún framleiðir skóhillur og hefur enn sem komið er aðeins selt örfá stykki. En Svanurinn var með í þróun vörunnar frá byrjun, því að „Svanurinn er staðfestingin sem viðskiptavinirnir þurfa að fá til að vita að þetta sé reglulega góð og örugg vara“, eins og Margareta orðar það sjálf.

Meðal annarra frásagna í heftinu má einnig nefna sögu Ingelu Andrée sem rekur örsmáa dagvöruverslun i Gustavsfors í Svíþjóð með u.þ.b. þrjá starfsmenn þegar allt er talið. Hún segir að það sé einfaldlega rangt að stærri fyrirtæki eigi auðveldara með að fá umhverfisvottun en litlu fyrirtækin. „Fyrst við gátum þetta, þá geta það allir“, segir Ingela, og bætir því að við í lítilli verslun sé auðvelt að hafa yfirsýn yfir alla starfsemina, þar finni allir til ábyrgðar og viti um hvað málið snúist. Auk þess sé umhverfisstarf hreint ekkert flókið mál, það snúist aðallega um heilbrigða skynsemi.

Sem fyrr segir eru 18 frásagnir í heftinu. Þar af eru 3 frá Noregi, 2 frá Finnlandi, 5 frá Svíþjóð, 3 frá Danmörku, 1 frá Álandseyjum, 1 frá Færeyjum og 3 frá Íslandi, nánar tiltekið frá Hótel Eldhestum í Ölfusi, Hótel Rauðuskriðu í Aðaldal og hreinsiefnaframleiðandanum Undra í Reykjanesbæ. Viðfangsefnin eru fjölbreytt, svo sem bleyjuframleiðsla, tjaldsvæðarekstur, prentun og framleiðsla þroskaleikfanga, svo eitthvað sé nefnt. Heftið er sem fyrr segir aðeins aðgengilegt á sænsku enn sem komið er, en vonir standa til að íslensk þýðing líti dagsins ljós á næsta ári.

Grafík, eftri; umhverfismerkið Svanurinn, neðri; forsíða heftisins - með mynd af umhverfismerktum barnaskóm frá Kavat í Svíþjóð.

Birt:
26. október 2012
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Jákvæðar sögur af Svaninum í smærri byggðum“, Náttúran.is: 26. október 2012 URL: http://nature.is/d/2012/10/26/jakvaedar-sogur-af-svaninum-i-smaerri-byggdum/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: