Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur opnað vefsvæði þar sem nálgast má með einföldum hætti nýjustu upplýsingar um vörur, aðrar en matvæli, sem hafa verið innkallaðar af markaði í Evrópu, Bandaríkjunum, Ástralíu og Kanada.

Vefsvæðinu, globalrecalls.oecd.org, er ætlað að ýta undir og bæta vöruöryggi en Efnahags- og framfarastofnunin telur kostnað vegna dauðsfalla og slysa af völdum skaðlegra framleiðsluvara nema meiru en einni billjón bandaríkjadala árlega, sem er meira en 126 billjónir króna.

Á vefsvæðinu geta neytendur kannað hvort vara sem þeir hafa hug á að kaupa hafi verið innkölluð í öðru landi. Þá geta innflytjendur og smásölukaupmenn fylgst með uppplýsingum á vefnum og brugðist þannig hratt við áhyggjum sem uppi gætu verið um öryggi vara sem þeir bjóða til sölu.

Loks gagnast vefurinn við að bæta samhæfingu milli eftirlitsaðila og stjórnvalda í því skyni að fjarlægja hættulegar vörur af markaði sem fyrst og bæta eftirfylgni.

Síðastliðinn áratug hefur orðið snörp aukning í innköllunum framleiðsluvara, að því er fram kemur í frétt Efnahags- og framfarastofnunarinnar um vefsvæðið. Stjórnvöld víða um heim birta reglulega fréttir um innkallaðar vörur á heimasíðum sínum en með nýja vefsvæðinu verður í fyrsta sinn hægt að nálgast slíkar upplýsingar frá ólíkum löndum á einum stað.

Vefsvæðið globalrecalls.oecd.org

Birt:
25. október 2012
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Upplýsingar um innkallaðar vörur á einum stað“, Náttúran.is: 25. október 2012 URL: http://nature.is/d/2012/10/25/upplysingar-um-innkalladar-vorur-einum-stad/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: