Nú er komið að því að hefja árvissa garðfuglakönnun Fuglaverndar en félagið hefur um árabil staðið fyrir rannsókn á garðfuglum og fengið áhugasama í lið með sér. Markmiðið er að athuga hvaða fuglar sækja í garða, í hve miklu magni og breytingar á samsetningu tegunda yfir vetrarmánuðina. Sem athugunarsvæði má nota húsagarða, afmörkuð svæði innan almenningsgarða, garðlönd við sumarbústaði eða skógarlundi. Meginatriðið er að sama svæði sé talið og reglulega sé fylgst með því í viku hverri. Fylgst er með fuglalífinu frá því í lok október fram í lok apríl - og niðurstöðurnar skráðar á þar til gert eyðublað.  Ef nægileg þátttaka næst er þetta haldgóð heimild um garðfugla á Íslandi.

Veturinn 2012-2013 er garðfuglakönnun Fuglaverndar frá 28. október 2012 til 27. apríl 2013. Á vef Fuglaverndar fuglavernd.is má nálgast eyðublaðið til að skrá niðurstöðurnar og frekari upplýsingar um könnunina. Áhugafólk um fugla er hvatt til að taka þátt - engin binding - lítið umstang en mjög skemmtilegt. Ekki er skilyrði að maður gefi fuglunum.

Í Bretlandi er einnig fylgst með garðfuglum en sú rannsókn er í gangi allt árið sjá á bto.org/gbw. Til fróðleiks fylgir hér slóð á "Project FeederWatch", sem er keimlík könnun og okkar, og niðurstöðurnar eru á þessari slóð: watch.birds.cornell.edu/PFW/ExploreData.

Meðfylgjandi mynd af músarrindli tók Örn Óskarsson í Hellisskógi við Selfoss núna í vikunni en umsjónarmenn könnunarinnar eru þeir Örn Óskarsson(8469783) og Ólafur Einarsson(8999744).

Birt:
Oct. 24, 2012
Tilvitnun:
Hólmfríður Arnardóttir „Garðfuglakönnun Fuglaverndar byrjar á sunnudaginn“, Náttúran.is: Oct. 24, 2012 URL: http://nature.is/d/2012/10/24/gardfuglakonnun-fuglaverndar-byrjar-sunnudaginn/ [Skoðað:April 12, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: