Eiga arkitektúr og lögfræði samleið?

Orðræða lögfræðinnar hafði oft vakið forvitni mína en ég fékk endurnýjaðan áhuga á henni þegar ég sat sem fulltrúi Arkitektafélags Íslands í dómnefnd í arkitektasamkeppni um nýbyggingu Hæstaréttar sumarið 1993. Í dómnefndinni sátu tveir hæstaréttardómarar sem eðli málsins samkvæmt lögðu mikla áherslu á skýringartexta sem fylgdu tillögunum.

Mat hæstaréttardómaranna í dómnefndinni var að megnið af skýringartextanum væri óskiljanlegur eða gildishlaðnar ýkjur sem gætu varla átt við byggingar, þ.e. markleysa.

Tók ég að mér það verkefni, sem annar fulltrúi arkitekta í nefndinni að ráða í verstu textana og færa þá lauslega yfir í skiljanlegra mál. Við það verkefni opnaðist mér ný sýn á hugtakanotkun akademískrar fagstéttar sem bjó ekki við viðurkennt íðorðasafn og réð þar af leiðandi varla yfir samræmdum merkingarbærum, haldgóðumog skiljanlegum hugtökum.

Ég lauk kandidatsprófi í arkitektúr frá Konunglegu listaakademíunni í Kaupmannahöfn árið 1984 og starfaði óslitið við fagið fram yfir hrun. Í umsókn minni um sæti í meistaranám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík1 gerði ég grein fyrir sjónarhorni mínu á það hvernig þverfagleg þekking á lögum geti byggt við menntun og starfsreynslu, sbr. eftirfarandi:

„Arkitektamenntun og 24 ára starfsreynsla hefur reynst mér vel við fagleg úrlausnarefni innan minnar starfgreinar, en núverandi efnahagsástand setur heimsmyndina á hvolf og krefst nýrra lausna. [...] lýsingar mínar á núverandi ástandi í umhverfis-, skipulags- og byggingarmálum má ekki líta á sem martraðir draumlauss arkitekts. Ég sé möguleika til að hafa áhrif til góðs gegnum haldbæra þverfaglega þekkingu á lögum, sem byggir við fyrri menntun og reynslu."

Lögfræðideild HR er ólík öðrum lögfræðideildum vegna sérstakrar áherslu á raunhæfa verkefnavinnu og hagnýta áfanga, en endurgjöf leiðbeinenda fyrir verkefnin er oftast vel rökstudd hlutlægum viðmiðum.

Að loknum skylduáfanga í aðferðafræði lögfræðinnar tóku við valkvæðir hagnýtir áfangar sem geta talist góð viðbót við menntun og starfsreynslu arkitekts. Má þar meðal annars nefna stjórnsýslurétt, samningarétt, verktaka- og útboðsrétt, umhverfisrétt, hugverka- og höfundarétt, vörumerkjarétt og hugverkasamninga, o.s.frv..

Almennari áfanga s.s. réttarheimspeki, réttarsögu, lagaensku, Evrópurétt, o.fl., valdi ég með hliðsjón af þeim þáttum lögfræðinnar sem kenndir eru í BA-námi sem ég taldi nauðsynlegt að kunna góð skil á. Eins og gefur að skilja beið mín oft býsna mikið lesefni í þessum áföngum enda var nauðsynlegt að kynna sér vel það námsefni sem samnemendurnir mínir voru búnir að læra í fornáminu. Mér var oft sýnd mikil þolimæði í hópvinnu en gagnrýni skólafélaganna var undantekningalaust hlutlæg og uppbyggileg.

Lokaritgerð ML

Val á efni meistararitgerðar minnar, Réttindi einstaklinga í umhverfismálum á grundvelli Mannréttindasáttmála Evrópu, tók mið af almennum áhuga mínum á umhverfismálum með það að markmiði að öðlast sem víðtækasta yfirsýn yfir umhverfisrétt2,  þar með talin mannréttindi, réttindi fatlaðra, sjálfbæra þróun og málsmeðferðarreglur samkvæmt s.k. Árósasamningi.

Rannsóknarspurning ritgerðarinnar var afmörkuð við það hvort umhverfisréttindi geti talist viðurkennd og virk mannréttindi. Til að svara rannsóknarspurningunni voru skoðaðir nokkrir lykildómar úr dómaframkvæmd og túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu (hér eftir MDE) á Mannréttindasáttmála Evrópu (hér eftir MSE)3 þar sem fjallað er um óþægindi sem einkalíf, fjölskylda og heimili fólks verða fyrir vegna áhrifa atvinnustarfsemi og annarra ytri áhrifa á umhverfið. Af dómum MDE mátti sjá að gildissvið 8. gr. MSE (friðhelgi einkalífs og fjölskyldu) hefur verið rýmkað frá gerð sáttmálans.

Í dómaframkvæmd MDE hefur því hefur verið slegið föstu að skv. 8. gr. MSE hvíli ábyrgð á ríkinu, ekki einungis neikvæðar skyldur, heldur einnig jákvæðar skyldur. Hér er átt við að ríkinu beri að grípa til ráðstafana til að hindra að stjórnvöld eða stofnanir á þess vegum, valdi óþægindum. Samkvæmt dómaframkvæmd MDE ber stjórnvöldum einnig að hindra einkafyrirtæki í að valda umhverfisóþægindum.

Af þróun dómaframkvæmdar MDE má færa rök fyrir því að þróun í túlkun á 8. gr. sáttmálans hafi rýmkað tiltekin umhverfisréttindi verulega og geti veitt sæmilega umhverfisvernd. Þrátt fyrir rýmkun réttindanna í dómaframkvæmd veitir ákvæðið einstaklingum líklega mest réttaröryggi og vernd sem öryggisákvæði, þegar um beina umhverfisvá er að ræða. Þó er ekki talið að dómstóllinn hafi viðurkennt umhverfismannréttindi sem slík né fest í sessi sérstaka aðferðafræði varðandi mannréttindi í tengslum við umhverfisvernd.

Í lok ritgerðarinnar var sjónum beint sérstaklega að banni við mismunun samkvæmt ákvæðum 14. gr. og 1. gr. samningsviðauka nr. 12 við Mannréttindasáttmála Evrópu og umhverfismál með tilliti til réttinda fatlaðra og lagaþróun varðandi réttindi þeirra í kjölfar sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra (SRF) frá 2006. Í ritgerðinni fjallaði ég einnig um innleiðingu nýfenginna og mikilvægra réttinda fatlaðra í íslenskan rétt með gildistöku skipulagslaga nr. 123/2010 og laga um mannvirki nr. 160/2010 þrátt fyrir að Ísland hefði ekki enn lögfest sáttmála SÞ um réttindi fatlaðra.

Þrátt fyrir skilyrði MDE um beina og milliliðalausa tengingu réttinda fatlaðra við kröfur um nauðsynlega aðlögun umhverfis að þörfum þeirra tel ég allar líkur á að sú hugsun sem liggur til grundvallar SRF að byggja á réttindum sem þegar eru fengin í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum muni flýta fyrir jákvæðum breytingum með tilliti til allra þeirra sem veikburða eru í samfélaginu en ekki einungis fatlaðra. Sé meira tillit tekið til þeirra veikburða í samfélaginu getur af því hlotist umhverfis- og samfélagslegur ábati, svo sem skjólbetra og vist- og mannvænna umhverfi.

Niðurstaða mín í ritgerðinni er að umhverfisréttindi geti varla enn talist ótvíræð og virk mannréttindi en að þau séu í stöðugri framþróun vegna árangursríks alþjóðlegs samstarfs á sviði umhverfismála.

Sjálfbær þróun

Í samræmi við niðurstöður umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, svonefnda Stokkhólmsráðstefnu 1972, um að maðurinn eigi að vernda og bæta umhverfið fyrir núverandi og komandi kynslóðir, beindust sjónir manna að sjálfbærni við nýtingu náttúruauðlinda. Ásamt Umhverfismálaáætlun SÞ var á ráðstefnunni samþykkt yfirlýsing um meginatriði umhverfisverndar4 sem hefur að geyma 26 almennt orðaðar meginreglur.

  • Í fyrstu meginreglu yfirlýsingarinnar er skilgreind bein tenging milli mannréttinda, manngöfgi og umhverfisgæða.5
  • Reglur 2-5 mæla beinlínis fyrir um auðlindaverndun þannig að vernda beri auðlindir jarðar með hagsmuni bæði núlifandi íbúa jarðar og komandi kynslóða. Viðurkennd er nauðsyn þess að nýta náttúruauðlindir í þágu mannkyns en tekið fram að fara verði mjög varlega í nýtingu óendurnýjanlegra auðlinda svo þær verði ekki tæmdar.

Síðan Stokkhólmsráðstefna SÞ var haldin hafa meginreglurnar reynst mikilvæg haldreipi við frekari þróun reglna um umhverfismál. Sem dæmi hefur af meginreglu tvö verið leidd umræðan um réttindi komandi kynslóða og hugmyndina um jafnræði kynslóðanna sem nú er orðið mikilvægt leiðarstef í umræðunni um ábyrga nýtingu náttúruauðlinda.6

Hugtakið sjálfbær þróun var fyrst kynnt til sögunnar í skýrslu SÞ um umhverfi og þróun sem kom út árið 1987 í s.k. Brundtland-skýrslu. Í Brundtland skýrslunni er sjálfbær þróun skilgreind sem: „Mannleg starfsemi sem fullnægir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum framtíðarkynslóða til að fullnægja sínum þörfum.“ 7

Umhverfisréttur tók vaxtarkipp í kjölfar skýrslunnar sem náði hámarki á Ráðstefnu SÞ um umhverfi og þróun sem var haldin í Ríó de Jaineró 1992 8 og lauk með samþykkt Ríó-yfirlýsingarinnar um umhverfi og þróun 9 og Dagskrá 21. aldarinnar.10 Ríóráðstefnan 11 hafði umhverfi mannsins sem verkefni eins og Stokkhólmsráðstefnan tveimur áratugum fyrr, en með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.12

Þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar voru frekar skilgreindar á Ríóráðstefnunni þ.e. efnahagsleg þróun, samfélagsleg þróun og umhverfisvernd. Hugtakið sjálfbær þróun hefur hlotið gagnrýni sem innhaldsrýrt hugtak sem hljóti að lúta ólíkri heimssýn hvers og eins. Engu að síður hefur við notkun hugtaksins í mörgum tilvikum tekist að sætta andstæður sem áður sýndust ósættanlegar, þ.e. að umhverfisvernd og þróun geti farið saman.

Söguleg yfirsýn yfir lögfræðilega haldbærni hugtaksins sjálfbær þróun er mikilvæg þegar um umhverfismál er fjallað, enda hafa verið festir í íslenskan landsrétt heilir lagabálkar í umhverfismálum sem byggja á samræmdri túlkun á hugtakinu.  

Í kjölfar ráðstefnunnar í Ríó voru margir þjóðréttarsamningar samþykktir. Samningur um aðgang að upplýsingum, þáttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum frá 1998, þekktur sem  Árósamningurinn 13 er líklega sá samninganna sem mestu máli skiptir innan áhrifa- og starfssviðs arkitekta.

Árósasamningurinn

Mikilvægar lagabreytingar sem varða umhverfismál hafa nýlega orðið á íslenskum landsrétti, þ.e. lögfesting hins svokallaða Árósasamnings 14 sem er ný tegund samnings um umhverfismál sem tengir saman umhverfisrétt og mannréttindi.

Ákvæði samningsins eiga að tryggja að almenningur geti notið ákveðinna og almennt viðurkenndra grundvallarmannréttinda í tengslum við umhverfismál, meðal annars þeirra réttinda sem tryggð eru með Mannréttindasáttmála Evrópu. Í samningnum felst viðurkenning á því að menn hafi skyldum að gegna gagnvart komandi kynslóðum og staðfest er að sjálfbærri þróun verður ekki náð án aðildar allra hagsmunaaðila og tengir þannig saman ábyrgð stjórnvalda og umhverfisvernd.

Árósasamningurinn veitir almenningi réttindi og leggur samningsaðilum og stjórnvöldum skyldur á herðar varðandi aðgang að upplýsingum og þátttöku almennings í ákvarðanatöku. Samningurinn styður þessi réttindi með ákvæðum um aðgang að réttlátri málsmeðferð sem stuðlar að auknu vægi samningsins.

Í formála Árósasamningsins eru umhverfisvernd og mannréttindi tengd saman og réttindum í umhverfismálum veitt sama staða og öðrum mannréttindum en sérstök áhersla er lögð á tvö grundvallaratriði, þ.e.  umhverfisrétt sem mannréttindi annars vegar og mikilvægi aðgangs að upplýsingum, þátttöku almennings og aðgangs að réttlátri málsmeðferð við sjálfbæra þróun hins vegar. Einnig er viðurkennt í formála samningsins að sjálfbær og vistvæn þróun byggist á virkri ákvarðanatöku stjórnvalda sem grundvallist bæði á umhverfislegum sjónarmiðum og framlagi almennings. Þegar stjórnvöld veiti almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál og geri honum kleift að eiga aðild að ákvarðanatöku stuðli þau að markmiðum samfélagsins um sjálfbæra þróun.

Samkvæmt Árósasamningnum hafa opinberar stofnanir ekki lengur einkarétt á því að gæta almannahagsmuna. Skuldbindingar Árósasamningsins eiga ekki einungis við þegar undirbúnar eru tilteknar ákvarðanir því samkvæmt markmiðum samningsins miða þær einnig að því að almenningur eigi að geta framfylgt umhverfislöggjöfinni. Af því leiðir að almenningur og félög sem starfa að umhverfismálum er ætlað að fara með virkt eftirlitsvald í þágu almennings og opinberra hagsmuna.15

Árósasamingurinn hefur verið leiddur í íslensk lög í þremur áföngum samkvæmt meginreglum samningsins sem hafa verið nefndar stoðir, þ.e.  fyrsti áfangi lögfestingar samningsins var samkvæmt s.k. fyrstu stoð - þ.e. aðgangur almennings að upplýsingum og upplýsingamiðlun, með lögum um upplýsingarétt um umhverfismál nr 23/2006.16
Annar áfangi lögfestingar samningsins var innleiddur samkvæmt s.k. annarri stoð - þ.e. undirbúningur ákvarðana, með lögum um lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 17 og lögum um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 18.  Lokaáfangi lögfestingarinnar var samkvæmt s.k. þriðju stoð - þ.e. endurskoðun ákvarðana, með lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 19 og lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins nr. 131/2001.20 Meginregla Árósasamningsins um málshöfðunarrétt almennings er þrengd skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 20 og getur varla talist hrein actio popularis regla (opin aðild almennings). Af lögskýringargögnum má þó ætla að meginreglan um greiðar kæruleiðir almennings í umhverfismálum skuli ráða í lagaframkvæmd.

Framlag almennings til umhverfismála er talið mikilvægt skv. skilningi Árósasamingsins, sem kallar á að allir þeir sem í framtíðinni munu fjalla um umhverfis- og skipulagsmál  verða að tileinka sér meginreglur stjórnsýsluréttarins þannig að málsmeðferð geti orðið skilvirk enda má líta þannig á að almenningur geti orðið aðili að flestum þeim ákvörðunum sem umhverfismál varða. Samkvæmt framangreindu eru möguleikar almennings til að gæta almannahagsmuna viðurkenndir en það getur skapað vanda að opin aðild getur skapað togstreitu gagnvart almennum málsmeðferðarrreglum þar sem miklar kröfur eru gerðar um form og efni. Slík togstreita getur skapað nýjan grundvöll fyrir árangursmiðaða og lýðræðislega umræðu um umhverfismál til lengri tíma litið.

Í stuttu máli má segja að allur almenningur geti framvegis látið til sín taka um þau flest umverfismál er hann telur sig einhverju varða.

Leiðsögn fyrir arkitekta?

Nú spyrja eflaust einhverjir kollegar mínir meðal arkitekta hvort þessi upptalning réttinda og skyldna sé nauðsynleg?

Rannsóknarspurningar lögfræðinnar varða oftast þróunarhátt tiltekinna hugmynda sem er ætlað að skapa réttindi og skyldur, í átt að haldbærum lagareglum og lögfræðilega haldbærni viðkomandi reglna. Rannsókn er síðan unnin samkvæmt aðferðafræði lögfræðinnar sem skilgreinir, afmarkar og ákvarðar rétthæð lagareglnanna, þ.e. lögfestingu þeirra, venju og dómaframkvæmd. Aðferðafræði lögfræðinnar má örugglega nota til hliðsjónar við það starf sem arkitektar eiga fyrir höndum við rökræður og marktækar rannsóknir til leiðsagnar við mótun haldbærra faghugtaka.

Eigi okkur arkitektum að verða eitthvað ágengt í rökræðu um nauðsyn og afmörkun ábyrgrar ráðgjafa arkitekta ber okkur að líta í eigin barm. Fagleg og marktæk skoðanaskipti, rökræður og rannsóknir innan raða arkitekta má telja býsna fátæklegar sé litið til þess að flest höfum við gengið í gegnum akademískt nám í fræðunum. Til þessa geta legið margar ástæður.

Í fyrsta lagi ber að telja sem áður segir að arkitektar eru fagstétt sem hefur sótt menntun sína til margra landa en ræður varla yfir samræmdum, merkingarbærum og haldgóðum faghugtökum. Þekking á íslenskri hönnunarsögu hlýtur að vera góð fótfesta fyrir sameiginlega sýn arkitekta á ábyrga og listræna umhverfismótun í okkar sérstaka og harðbýla landi. Þótt telja megi að nýlegar fræðilegar rannsóknir á íslenskri hönnunarsögu séu af skornum skammti er hér rétt að nefna rannsóknir Péturs H. Ármannssonar arkitekts um störf nokkurra íslenskra arkitekta í tengslum við sýningar sem haldnar voru á vegum Listasafns Reykjavíkur á undanförnum tveimur áratugum, ásamt rannsóknum dr. Arndísar Árnadóttur á íslenskri hönnunarsögu 1900-1970 sem birtust í nýúgefinni doktorsritgerð hennar í sagnfræði.21

Í öðru lagi tel ég að við glímum enn við fortíðardraug í samskiptum frumherjanna í okkar fagstétt sem hiklaust kölluðu gífuryrði og atvinnuróg hver yfir annan á tímum kalda stríðsins. Skoðanaskipti á vettvangi Arkitektafélags Íslands hafa að vísu tekið miklum framförum eftir hrunið, þegar flestum virðist nú orðið ljóst að það sé félagslegur ávinningur að byggja upp frekar en að rífa niður.

Í þriðja lagi ber okkur að líta til þess hvert inntak góðs siðferðis á starfsvettvangi arkitekta er. Siðareglur AÍ geta veitt leiðsögn um umhverfismál sbr. 3. mgr. 1. gr., þ.e. arkitekt skal taka tillit til áhrifa verka sinna á mannlegt samfélag, náttúru og umhverfi í víðtækasta skilningi. Arkitekt hefur meðal annars þær skyldur gagnvart verkkaupa samkvæmt 6. mgr. 3. gr. siðareglna að leitast við að viðhalda og auka starfsþekkingu sína þannig að hún standist mál hvers tíma.

Af 6. mgr. 3. gr. siðareglna AÍ mætti því með lögfræðilegri hugsun leiða að það geti talist siðferðileg skylda arkitekta að kynna sér vel nýorðnar lagabreytingar á umhverfissviði, samanber lögfestingu Árósasáttmálans, gildistöku skipulagslaga 22, mannvirkjalaga 23 og byggingarreglugerð 24.   

Samkvæmt minni reynslu af skipulags- og byggingaryfirvöldum er víða þörf á hugarfarsbreytingu hjá stjórnvöldum. Ég er varla einn meðal arkitekta sem hefur reynslu af óvandaðri stjórnsýslu þessara aðila. Hér er sérstaklega átt við málsmeðferð stjórnvaldsins þar sem meginreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, s.s. leiðbeiningarskylda 7. gr. stjórnsýslulaga, og málshraðaregla 9. gr. stjórnsýslulaga eru iðulega þverbrotnar. Að mínu mati tekst skipulags- og byggingaryfirvöldum oft illa upp við rökstuðning svokallaðra matskenndra ákvarðana.

Rökstuðningur í skilningi 22. gr. stjórnsýslulaga skal fylgja meginsjónarmiðum sem eru ítarlega skilgreind í lögskýringargögnum við stjórnsýslulög. Samkvæmt minni reynslu er rökstuðningur vegna matkenndra ákvarðanna oft lítið annað en e.k. ábyrgðarleysisyfirlýsing stjórnvaldsins sem ekkert er á byggjandi og fráleitt í anda þeirra sjónarmiða að skipulagsmál eigi að vera samtal milli yfirvalda og borgaranna um stefnumótun í umhverfismálum. Slíkur rökstuðningur getur talist brot á helstu meginreglu stjórnsýslulaga, þ.e. svokallaðri jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga sem mælir fyrir um að stjórnsýsluákvarðanir skulu vera málefnalegar, mat forsvaranlegt og að samræmis (við fyrri ákvarðanir) skuli gætt.

Hér ætla ég að leyfa mér að setja fram spurningu um það hvort arkitektar geti almennt talist vera í stakk búnir til að takast á við stjórnsýslu skipulags- og byggingarmála af festu, séu viðbúnir  lögfestingu Árósasáttmálans og þeim breytingum á landsrétti sem í vændum eru í kjölfar lögfestingarinnar?

Þeir sem um skipulags- og umhverfismál munu fjalla þurfa örugglega að temja sé mikla þolinmæði því afgreiðsla mála mun líklega dragast enn frekar á langinn en nú tíðkast vegna fjölbreyttari aðkomu almennings að umhverfismálum. Arkitektar sem um umhverfismál fjalla verða að byggja ráðgjöf sína á öruggri þekkingu á lagaumhverfinu, þannig að þeir teljist hæfir til að veita skjólstæðingum sínum örugga leiðsögn í málaflokknum og geti gætt þess að mál tefjist ekki óþarflega vegna óvandaðra vinnubragða stjórnvaldsins.

Hér má nefna að málum er oft vísað til úrskurðar hjá Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála (ÚSB)25 vegna formgalla í málsmeðferð stjórnvaldsins, en þar hafa málin oft hrannast upp og málsaðilar hafa oft mátt bíða úrskurðar árum saman. ÚSB er ljóst hvert stefnir með lögfestingu Árósasamningsins og hefur nýlega ráðið fleiri lögfræðinga til starfa til að stytta málsmeðferð og mæta fyrirsjánlega auknu álagi á stofnunina. 

Niðurstaða og tillögur

Ég hef hvorki ætlað mér að standa fyrir nýrri siðvæðingu né e.k. lagastagli arkitekta með laganámi mínu. Ég tel að arkitektar séu yfirleitt vandað fólk og velti góðu siðferði reglulega fyrir sér. En ég tel að flestum séu ljósar þær brotalamir sem við er að kljást í okkar starfsumhverfi. Þessar brotalamir má auðveldlega lagfæra með hliðsjón af aðgengilegri lögfræði fyrir almenning25

Fyrsta dæmi um sjálfsagða lögfræði í rekstri arkitektastofu má nefna gerð haldbærra hönnunarsamninga við verkkaupa þar sem réttindi og skyldur, s.s. vinnuframlag arkitekta og greiðsluskylda verkkaupa o.s.frv. eru ótvíræð. Hér má hafa í huga að í dag þykir sjálfsagt í öllum viðskiptum að athuga gjaldfærni verkkaupa áður samstarf hefst með einu símtali, t.d. í banka, eða kunningja.

Annað dæmi um sjálfsagða lögfræði í rekstri arkitektastofu eru samstarfssamningar í hönnunarsamstarfi sem styðjast við höfundalög nr. 73/1972 og almennar reglur samningaréttarins. Slíkir samningar teljast líklega frekar til undantekninga en reglu. Úr því þarf víða að bæta. Stöðluð samningaform á ensku má víða finna á netinu þegar um hönnunarsamstarf milli landa er um að ræða.

Þriðja dæmi er hvatning til arkitekta að kynna sé vel réttindi sín skv. höfundalögum og þá einna helst meginreglurnar um sæmdarrétt og birtingarrétt. Gott gagn má hafa af því að lesa lagafrumvarpið27 og lög nr. 80/1972 um staðfestingu Bernarsáttmálans til verndar bókmentum og listum.28

Í ljósi nýlokins laganáms míns og reynslu sem starfandi arkitekt í tæp 30 ár er skoðun mín enn sú að heildaryfirsýn og hæfni arkitekta til að leiða saman krafta sérfræðinga til að skapa listrænar heildir muni skera úr um gildi starfa arkitektastéttarinnar í framtíðinni.

Þetta viðhorf getur falið í sér mótsögn en sé litið til þess að í dag er boðið upp á fjölbreytt nám í sérhæfðum tæknigreinum sem skarast við hefðbundin störf arkitekta ber arkitektum að líta til kjarnans í skapandi og listrænni nálgun menntunar þeirra á mótun hins manngerða umhverfis, þ.e. leiða saman sérhæfingu annarra starfsstétta að umhverfislega haldbærum og listrænum lausnum sem samræmast menningarstigi nútímans. 

Arkitektum er í námi sínu innrættur samhljómur samfélagsábyrgðar og manngildis-hugmynda (e. Humanism). Haldbærar og sjálfbærar lausnir í umhverfis- og skipulagsmálum geta í framtíðinni verið í höndum arkitekta, en til að geta axlað þá ábyrgð þurfa þeir að kunna á öll tæk verkfæri til að framfylgja þeim gildum sem gefa samfélagslega ábyrgum arkitektum möguleika til að miðla listrænni sýn á mótun umhverfsins. Takist okkur ekki að hafa áhrif á umræðuna með marktækum rökum megum við horfa á eftir fleiri glötuðum tækifærum í hendur tæknimenntaðra faghópa sem listræn heildarsýn varðar oft litlu.         

Arkitektum ber meðal annars að hafa í huga að  þeir sem fara með úrskurðar- og ávörðunarvald fyrir stjórnvöld gera strangar kröfur til að tungutak, hugtaka- og málnotkun sé samræmd og að rökstuðningur sé vandaður og skýr.

Með laganámi mínu hef ég meðal annars leitast við að afla mér hagnýtrar lagaþekkingar sem getur brúað e.k. skilningsbil sem mögulega er ein skýring á því hversu torsótt getur verið að miðla þekkingu, hæfni, færni og listrænni heildarsýn arkitekta á umhverfismótun til þeirra sem fara með úrskurðar- og ávörðunarvald fyrir hið opinbera. Reynslan af laganáminu mun örugglega nýtast mér í framtíðinni á sviði hönnunar enda snýst starf arkitekta oft um örugga leiðsögn um lagaumhverfi umhverfismála sbr. sjálfbæra þróun og umhverfisréttindi skv. Árósasamningi og rétta túlkun réttarheimilda í sífellt flóknara lagaumhverfi á sviði umhverfisréttarins.     

Líklega má kalla mig sérfræðing í umhverfisrétti að loknu laganámi, a.m.k. hef ég leitast við að tileinkað mér þekkingu á raunhæfum lagalegum úrlausnarefnum réttarsviðsins.

Ljósmynd: Höfundurinn Tryggvi Tryggvason, Arkitekt Cand arch. og lögfræðingur ML.
Greinin birtist fyrst í Arkitektúr - Tímarit um umhverfishönnun 1. tölublaði 2012.

--------

1. Reglur HR um meistaranám.  (c) liður 5. gr. - Umsækjendur með BA- eða BS- gráðu í öðrum námsgreinum en lögfræði geta fengið inngöngu í meistaranám. Við mat á slíkum umsóknum skal Námsþróunarráð HR líta sérstaklega til samsetningar náms umsækjanda og námsárangurs í einstökum þáttum þess. Þá skal þeim umsækjendum gert skylt að ljúka námskeiði í aðferðafræði lögfræðinnar [...]. Meistarapróf í lögfræði (ML) leiðir ekki til fullnaðarprófs í lögfræði fyrir þessa umsækjendur í skilningi 4. tl. 1. mgr. 6 gr. l. nr. 77/1998 um lögmenn og telst ekki sambærilegt embættisprófi í lögfræði í skilningi laga.

2. Tryggvi Tryggvason,  Réttindi einstaklinga í umhverfismálum á grundvelli Mannréttindasáttmála Evrópu.
Slóð, http://hdl.handle.net/1946/9327   [Sótt á vefinn 12.12.2011]

3. Lög um Mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994. Slóð, http://www.althingi.is/lagas/nuna/1994062.html

4. Declaration of the United Nations Conference on the Human Environment.
Slóð, http://www.unep.org/Documents.Multilingual/Default.asp?DocumentID=97&ArticleID=1503&l=en [Sótt á vefinn 11.3.2011].

5. Principle 1. - Man has a fundamental right to freedom, equality and adequate conditions of life in an environment of quality that permits life of dignity and well-being ... [áherslubr. höfundar]. 

6. Elli Louka, International Environmental Law - Fairness, Effectiveness and World Order, bls. 32-33.

7. Aðalheiður Jóhannsdóttir, „Inngangur að umhverfisrétti”, bls. 17

8. World Summit of Sustainable Development (skammst. WSSD).  Starfi ráðstefnunnar er stöðugt haldið áfram sbr. ráðstefna SÞ í Jóhannesarborg 2002.

9. Vefútgáfa Ríó-yfirlýsingarinnar.
Slóð, http://www.un.org/documents/ga/conf151/aconf15126-1annex1.htm [Sótt á vefinn 8.12.2010]

10. UN Doc. A/CONF. 151/26 (Vol I og III) 1992 Report of the United Nations Conference on Environment and Development.

11. Íslenskan texta er að finna í Alþt. 1993-1994, A-deild, þskj. 1182. Vefútgáfa Alþingistíðinda.
Slóð, http://www.althingi.is/altext/117/s/1182.html [Sótt á vefinn 8.12.2010].

12. Ríó-áherslunum var fylgt eftir á Ráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna um umhverfi og þróun í Jóhannesarborg (2002). Áherslur og markmið Ríó-ráðstefnunnar voru þar endurstaðfest af þjóðum heims sem samþykktu að auki nýja yfirlýsingu, Jóhannesarborgaryfirlýsinguna og áætlun um innleiðingu þeirra markmiða sem fram koma í yfirlýsingunni.
Slóð, http://www.un.org/esa/sustdev/documents/WSSD_POI_PD/English/POIChapter1.htm [Sótt á vefinn 12.4.2011].

13. Aarhus Convention, 28. júní 1998, 2161 UNTS 447; 38 ILM 517 (1999).

14. Tillaga til þingsályktunar, þskj. 1032, 654. mál. Vefútgáfa Alþingistíðinda.    Slóð, http://www.althingi.is/altext/126/s/1032.html  [Sótt á vefinn 12.12.2011].

15. Aðalheiður Jóhannsdóttir og Eiríkur Tómasson, Endurskoðun ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið, bls. 55.

16. Lög um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006. Slóð, http://www.althingi.is/lagas/nuna/2006023.html

17. Lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Slóð, http://www.althingi.is/lagas/nuna/2000106.html

18. Lög um mat á umhverfismat áætlana nr. 105/2006. Slóð, http://www.althingi.is/lagas/nuna/2006105.html

19. Lög um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. http://www.althingi.is/lagas/nuna/2011130.html

20. Lög um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins nr. 131/2011. Slóð, http://www.althingi.is/altext/stjt/2011.131.html.

21. Arndís Árnadóttir, Nútímaheimilið í mótun - fagurbætur fúnsjónalismi og norræn áhrif á íslenska     hönnun 1900-1970. Háskólaútgáfan, Reykjavík 2011 - Í doktorsritgerð Arndísar eru mörg alþjóðleg hugtök um hönnun þýdd og heimfærð upp á íslenska hönnunarsögu þannig að ritgerðin og nýyrðasmíð Arndísar getur talist mikilsvert framlag til þróunar íslenskra hönnunarhugtaka.

22. Skipulagslög nr. 123/2010. Slóð, http://www.althingi.is/lagas/nuna/2010123.html

23. Mannvirkjalög nr. 160/2010. Slóð, http://www.althingi.is/lagas/nuna/2010160.html

24. Byggingarreglugerð. Slóð, http://www.mannvirkjastofnun.is/library/.../Byggingarreglugerd_2012.pdf

25. Slóð, http://www.usb.is/  [Sótt á vefinn 28.12.2011].

26. Sjá. t.d.: Þórir Örn Árnason, Samningar og skjöl. Björn Þ. Guðmundsson, Lögbókin þín.

27. Höfundalög nr. 73/1972. Slóð, http://www.althingi.is/lagas/nuna/1972073.html

28. Lög um heimild til að staðfesta Bernarsáttmálann til verndar bókmentum og listum. Slóð, http://www.althingi.is/lagas/nuna/1972080.html

 

Birt:
22. október 2012
Höfundur:
Tryggvi Tryggvason
Tilvitnun:
Tryggvi Tryggvason „Útúrdúr á starfsferli arkitekts“, Náttúran.is: 22. október 2012 URL: http://nature.is/d/2012/10/22/uturdur-starfsferli-arkitekts/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 25. október 2012

Skilaboð: