Svarthvítt frumvarp um búfjárbeit
Í gær var dreift á Alþingi frumvarpi til laga um búfjárbeit. Flutningsmenn eru þingmennirnir Mörður Árnason og Birgitta Jónsdóttir. Markmið frumvarpsins er að „efla landvernd og sjálfbæra búfjárbeit“ og til þess að ná því markmiði skal búfé „aðeins beitt innan girðingar“. Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar 2023.
Neikvæðar aukaverkanir
Fáum blandast hugur um mikilvægi þess að „efla landvernd og sjálfbæra búfjárbeit“. Hins vegar er hætt við að sú aðferð sem lögð er til í frumvarpinu stuðli síður en svo að „sjálfbærri búfjárbeit“. Í þessu sambandi er óhjákvæmilegt að taka tillit til ólíkrar stöðu landshlutanna. Þannig myndi algjört lausagöngubann líklega leiða til þess að sauðfjárrækt legðist að mestu leyti af á Vestfjörðum, víða á Austurlandi og á fleiri svæðum þar sem sauðfé er einmitt beitt í mestri sátt við náttúruna og þar sem sauðfjárrækt vegur þyngst í atvinnusköpun og viðhaldi byggðar. Um leið myndi sú kjötframleiðsla sem eftir væri færast nær því að vera verksmiðjubúskapur með öllum þeim neikvæðu aukaverkunum sem honum fylgja, svo sem aukinni áburðarnotkun og hækkandi hlutfalli korns í fóðri á kostnað gróffóðurs.
Vestfirðir sem dæmi
Tökum Vestfirði sem dæmi. Þar er byggð mjög dreifð og gróður- og jarðvegseyðing í lágmarki, ef nokkur. Búin er flest lítil og rúmt í högum, enda hefur bæði jörðum og sauðfé fækkað til muna á síðustu árum og áratugum. Ræktunarland er víðast af skornum skammti og því byggir afkoma búanna á skynsamlegri nýtingu þess mikla beitilands sem til staðar er. Þetta beitiland tilheyrir í mörgum tilvikum öðrum jörðum, sem komnar eru í eyði. Nýting þeirra kallar á gott samkomulag bænda og annarra jarðeigenda, en það er út af fyrir sig annað mál. Aðalmálið er að landrými á svæðinu er yfirdrifið þegar á heildina er litið og fátt sem bendir til að það sé ofnýtt. Þrátt fyrir að þarna fáist hvað mestar afurðir eftir hvern grip eiga búin mjög erfitt með að mæta auknum rekstrarkostnaði, smæðar sinnar vegna. Ófrávíkjanlegar lagakröfur um uppsetningu girðinga útiloka líklega áframhaldandi rekstur margra þeirra.
Lækningin verri en sjúkdómurinn?
Sá fjárhagslegi baggi sem krafan um girðingar myndi binda vestfirskum búum og öðrum búum af svipuðu tagi, er aðeins hluti ástæðunnar fyrir því að „sjálfbærasta búfjárbeitin“ myndi líklega leggjast af að mestu. Þau bú sem hefðu fjárhagslega burði til að setja upp girðingar myndu óhjákvæmilega nýta mun minna land til beitar eftir breytinguna, sem þýðir einfaldlega að gengið yrði nær þeim hluta landsins en áður. Hér þarf einnig að taka umhverfisleg áhrif girðinganna sjálfra með í reikninginn. Sums staðar hagar reyndar þannig til að uppsetning girðinga er óframkvæmanleg, en annars staðar yrði gróðureyðing og landrask vegna framkvæmdanna sjálfra vafalítið langt umfram það sem sjálf beitin getur valdið. Þetta á í það minnsta við þar sem rásir eru ristar í ósnortið land til að búa til gott undirlag fyrir girðingar, eins og nú má víða sjá í sveitum landsins.
Svolítill útúrdúr
Reyndar er hægt að hugsa sér einfalda lausn hvað Vestfirði varðar. Þetta er bara spurning um þann skilning sem lagður er í orðin „innan girðingar“. Það vill nefnilega svo vel til að Vestfirðir eru lokaðir frá öðrum landshlutum með varnargirðingu milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar. Kannski er þá hægt að líta á að öllu búfé á Vestfjörðum sé beitt „innan“ þeirrar girðingar. Ég geri þó frekar ráð fyrir að þessi skilningur þyki fela i í sér útúrsnúning á orðum frumvarpsins.
111. meðferð á landi og búfé!
Sums staðar á landinu eru svæði þar sem varla er eftir stingandi strá, en þar sem búfé er engu að síður beitt. Sjálfur hef ég t.d. bæði séð kindur á beit á Mývatnsöræfum og uppi undir Veiðivötnum, þrátt fyrir að þar væri varla meira en ein gróin þúfa eða einn grasbrúskur. Slíka meðferð á landi og búfé hefði átt að stöðva fyrir löngu. Reyndar gafst kjörið tækifæri til þess fyrir svo sem 30 árum þegar ljóst var að draga þyrfti úr lambakjötsframleiðslunni. En í stað þess að skoða í alvöru hvar væri forsvaranlegt að halda fé til beitar og hvar ekki, var farin sú leið að beita flötum niðurskurði og gera í engu upp á milli þeirra sem beittu fé sínu í sátt við náttúruna og hinna sem níddust á landinu. Þarna brást menn kjark, ekki bara stjórnmálamenn, heldur einnig og ekki síður forystu bændahreyfingarinnar.
Betri tillaga:
Með hliðsjón af framanskráðu legg ég til að þingmennirnir dragi frumvarp sitt til baka og leggi þess í stað fram tillögu til þingsályktunar um gerð markvissrar áætlunar um nýtingu beitilands á Íslandi, þar sem raunverulegt tillit væri tekið til hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Í slíkri áætlun þarf að sjálfsögðu að taka áhrif allra grasbíta með í reikninginn. Líklegt má telja að í framhaldinu yrðu lögð fram frumvörp sem gera það mögulegt að banna alfarið beit á viðkvæmum svæðum og beita sektum ef út af er brugðið. Þarna hlýtur krafan um upprunamerkingu búfjárafurða einnig að koma við sögu. Það er hreinlega kjánalegt að neytendum skuli ekki gert kleift að sjá hvort lambinu sem þeir hyggjast leggja sér til munns hafi verið beitt á Hornstrandir eða Mývatnsöræfi.
Til vara
Lítist þingmönnunum ekki á að draga frumvarp sitt til baka, legg ég til að þeir striki út úr því allar tilvísanir í sjálfbærni. Því hugtaki er gáleysislega beitt í frumvarpinu.
Lokaorð í lit
Ég fagna umræðunni um nýtingu beitilands. Það er löngu kominn tími til að taka alvarlega til í þeim málum. En sé horft á viðfangsefnið í svarthvítu er hætt við að lausnin verði jafnvel verri en vandamálið.
Af bloggsíðu Stefáns Gíslasonar.
Ljósm. Kindur í réttum, Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Svarthvítt frumvarp um búfjárbeit“, Náttúran.is: 17. október 2012 URL: http://nature.is/d/2012/10/17/svarthvitt-frumvarp-um-bufjarbeit/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.