Nýtt frumvarp um beit innan girðingar – Mörður og Birgitta í lið með Herdísi
Til að hefta uppblástur og landspjöll verður búfé framvegis aðeins beitt innan girðingar – samþykki alþingi frumvarp sem dreift verður á morgun . Gert er ráð fyrir að hin nýju „lög um búfjárbeit“ taki gildi eftir rúman áratug og gefist því góður tími til að undirbúa hina nýju skipan, með breytingum á öðrum lögum, með nýju regluverki frá ráðuneytum og sveitarstjórnum, og með framkvæmdum á beitarsvæðum.
Flutningsmenn frumvarpsins eru þau Mörður Árnason og Birgitta Jónsdóttir og tileinka þau frumvarp sitt Herdísi Þorvaldsdóttur, baráttumanni fyrir landvernd á Íslandi og höfundi kvikmyndar um uppblástur og beit sem sýnd var í Sjónvarpinu á sunnudagskvöld.
Frumvarpið er aðeins þrjár greinar. Í 1. grein eru kynnt markmið frumvarpsins, landvernd og sjálfbær búfjárbeit. Í 2. grein segir að búfé skuli aðeins beitt innan girðingar. Í 3. segir að lögin öðlist gildi í ársbyrjun 2103, eftir tíu ár rúmlega.
Í greinargerð kemur meðal annars fram að í öllum öðrum norrænum ríkjum er að finna lagareglur sem skylda eigendur búfjár til að beita því aðeins á afmörkuðum svæðum að viðlagðri skaðabótaskyldu.
Ljósmynd: Kind á Kili, ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
smugan.is „Nýtt frumvarp um beit innan girðingar – Mörður og Birgitta í lið með Herdísi “, Náttúran.is: 15. október 2012 URL: http://nature.is/d/2012/10/15/nytt-frumvarp-um-beit-innan-girdingar-mordur-og-bi/ [Skoðað:7. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.