Flúormengun á Reyðarfirði
Á Reyðarfirði hefur flúor borist úr álveri Alcoa Fjarðaáls um nágrennið og mengað þar gróður og hey. Nú eru bændur í óvissu um hvað verður og hver ber skaðann. Flúor getur eyðilagt tennur og bein ef þess er neytt umfam algert lágmarksmagn. Og því er bústofn bænda á svæðinu í verulegri hættu. Talsmenn álversins hafa komið fram í fjölmiðlum og gengist við lekanum og lofað bót og betrun enda hreinsun útblásturs grundvallaratriði í starfsleyfi fyrirtækisins. Í fréttum hefur mátt skilja að þessi leki hafi verið viðvarandi meira og minna undanfarin tvö ár.
Væri ekki eðlilegt að Alcoa Fjarðarál kæmi með hreint og ómengað hey til bænda á meðan heyforði þeirra er rannsakaður og metið hvort hann er hæfur til fóðurs. Væri ekki eðlilegt að stjórnendur Alcoa Fjarðaráls kæmu og lýstu þvi yfir að allur skaði verði bættur. Hvort heldur það sé heyforði eða jafnvel bústofn sem verður fyrir skaða.
Eins væri forvitnilegt að vita hvort svo langvarnadi mengun valdi ekki skaða á fólki á svæðinu og jafnvel lífríki sjávar. Ber á sævðinu eru örugglega óhæf til manneldis og þá væntanlega rjúpur sem eru vinsæll jólamatur þar eystra.
Það væri athyglisvert að vita hvar þau mörk liggja að Umhverfisstofnun geti farið fram á stöðvun rekstrar á meðan úrbætur eru gerðar, en ef fyrirtæki uppfylla ekki skilyrði í starfsleyfi hlýtur sá kostur að koma til skoðunar.
Birt:
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Flúormengun á Reyðarfirði“, Náttúran.is: 13. október 2012 URL: http://nature.is/d/2012/10/13/fluormengun-reydarfirdi/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.