Sjálfboðaliðar óskast fyrir Grænu helgina
Fyrstu helgina í október mun Umhverfisstofnun taka þátt í tveggja daga alþjóðlegum viðburði þar sem sjálfboðaliðar í náttúruvernd koma saman og láta gott af sér leiða undir yfirskriftinni The Big Green Weekend.
Það er CVA (Conservation Volunteers Alliance) sem stendur fyrir þessum atburði og er það í annað sinn sem viðburðurinn fer fram í Evrópu.
Umhverfisstofnun er ein af stofnendum CVA og hefur stofnunin áhuga á að efla íslenskt sjálfboðaliðastarf með því að óska eftir að íslensk náttúruverndarsamtök taki þátt í verkefninu.
Markmið með Grænu helginni (The Big Green Weekend) er m.a. að vinna saman í þágu náttúruverndar, efla samstarf milli hópa, að kynnast sjálfboðaliðastarfi annarra og síðast en ekki síst ræða saman um náttúruvernd á Íslandi.
Sjálfboðaliðum verður skipt í 4 hópa sem munu vinna sjálfboðaliðastörf á friðlýstum svæðum í eða í nágrenni Reykjavíkur. Hver hópur verður með liðstjóra sem eru annað hvort landverðir eða verkstjórar í náttúruvernd (sjálfboðaliðar).
Verkefnin eru:
- Eldborg í Bláfjöllum: Afmörkun göngustíga og endurheimt mosagróðurs.
- Háubakkar: Hreinsun svæðis.
- Rauðhólar: Lagfæring girðingar umhverfis svæðis og hreinsun þess.
- Laugarás: Göngustígagerð, hreinsa gróður af klöppum (í samráði við jöklafræðing).
- Reykjanesfólkvangur: Hreinsun svæða og endurheimt mosagróðurs við Leiðarenda.
- Sjálfboðaliðar verða hvattir til að taka ljósmyndir af svæðinu sem þeir vinna á, áður en hafist er handa, meðan á vinnu stendur og eftir að úrbótum lýkur. Á sunnudeginum kynna síðan hóparnir verkefni sín og niðurstöður í máli og myndum.
Sjá nánar á vef Umhverfisstofnunar.
Ljósmynd: Rauðhólar og blóðberg, ljósm. Árni Tryggvason.
Birt:
Tilvitnun:
Eydís Franzdóttir „Sjálfboðaliðar óskast fyrir Grænu helgina“, Náttúran.is: 3. október 2012 URL: http://nature.is/d/2012/10/03/sjalfbodalidar-oskast-fyrir-graenu-helgina/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.