RIFF: Vetrarhirðingjar
Kvikmyndin Vetrarhirðingjar (Hiver Nomade) eftir Manuel von Stürler er falleg heimildarmynd um tvær manneskjur sem gæta hjarðar sinnar á ferð um Sviss að vetri til. Markmið ferðarinnar er að fita féð á því sem eftir er á ökrum og túnum sem verða á vegi þeirra. Þau eru fjóra mánuði á ferð án þess að yfirgefa hjörðina og hafast við í tjöldum í öllum veðrum, neyta matar síns oftast undir berum himni og komast sjaldan í bað.
Manuel von Stürler tekst að vera fluga á vegg ( þrátt fyrir 3-4 manna tökulið ) og nándin við persónur myndarinnar er einstök. Þegar önnur aðalpersóna myndarinnar, Pascal, var töfraður fram í Q&A í lok sýningarinnar í Háskólabíó í kvöld var sem þar kæmi gamall vinur. Allur salurinn gladdist við að sjá hann kominnn í eigin persónu. Og þeir félagar svöruðu spurningum áhorfenda af einlægni og hreinskilni. Eittvað sem maður fyrirfinnur ekki á hverjum degi í kvikmyndabransanum.
Pascal hefur stundað þessa iðju áratugum saman en er einn fárra sem enn stunda fjárhirslu með þessum hætti. Enda víða orðið erfitt um vik vegna umferðarmannvirkja, nýrra hverfa og eins bænda sem ekki kæra sig um þessar heimsóknir.
Þeirri hugmynd skaut upp hvort þetta gæti verið sniðug hugmynd hér á landi. Að láta smala fylgja fé á afrétt, eins og gert var í eina tíð, og halda því frá viðkæmum svæðum. Einveran ( reyndar yfirleitt í nágrenni byggðar ) virtist gera þessu fólki gott. Þeim leið vel þótt stundum væri stutt í smápirring. Lífstakturinn allur annar. Hægar og mýkri.
Þeir sem enn ekki hafa séð myndina hafa tækifæri þann 3.10.2012 - kl. 20:00 í Háskólabíó.
Birt:
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „RIFF: Vetrarhirðingjar“, Náttúran.is: Oct. 1, 2012 URL: http://nature.is/d/2012/10/01/riff-vetrarhirdingjar/ [Skoðað:Oct. 5, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Oct. 2, 2012