Illa unnið að framkvæmdum OR á Hengilssvæðinu
Framkvæmdir við niðurdælingu vatns frá Hellisheiðarvirkjun, sem leysti úr læðingi jarðhræringar við Húsmúla á Hengilssvæðinu haustið 2011 eru sagðar hafa verið illa undirbúnar og unnar. Þetta kemur fram í skýrslu sérfræðinga sem unnin var fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Í skýrslunni segir að jarðskjálftar vegna framkvæmdarinnar hafi komið á óvart og vakið um tíma kvíði og tortryggni hjá Hvergerðingum. Fyrstu viðbrögð hafi verið fálmkennd og nokkurn tíma hafi tekið að átta sig á atburðarrásinni og hvernig við skyldi brugðist.
Í skýrslunni kemur fram að jarðhræringar séu minni og vægari nú en fyrstu mánuði niðurdælingar, þrátt fyrir óbreytta dælingu. Það sé „skýr vísbending um að niðurdælingin sé nú búin að losa um mestu mismunaspennuna við Húsmúla og að vökva og þrýstijafnvægi sé að komast þar á." Sérfræðingarnir gagnrýna bæði undirbúning og framkvæmd dælingarinnar. Skjálftarnir hafi komið á óvart og vakið um tíma kvíða og tortryggni. Fyrstu viðbrögð við því hafi verið fálmkennd og nokkurn tíma hafi tekið að átta sig á atburðarásinni og hvernig við skyldi brugðist.
Sveinbjörn Björnsson, jarðeðlisfræðingur og fyrrum háskólarektor, var formaður sérfræðingahópsins sem vann skýrsluna. Með honum störfuðu Bjarni Bessason, Verkfræðistofnun HÍ; Gunnar Gunnarsson, Orkuveitu Reykjavíkur; Ólafur G. Flóvenz, Íslenskum orkurannsóknum; Steinunn S. Jakobsdóttir, Veðurstofu Íslands og Þóra Árnadóttir Jarðvísindastofnun Háskólans. Fulltrúi Hvergerðinga í hópnum var Eyþór H. Ólafsson verkfræðingur og bæjarfulltrúi.
Tjarnir við niðurdælingarholur á Hellisheið, ljósm. Ómar Ragnarsson.
Birt:
Tilvitnun:
Jón Hákon Halldórsson „Illa unnið að framkvæmdum OR á Hengilssvæðinu“, Náttúran.is: 1. október 2012 URL: http://nature.is/d/2012/10/01/illa-unnid-ad-framkvaemdum-or-hengilssvaedinu/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.