Sláandi svör frönsku vísindamannanna við gagnrýninni
Vikublaðið sem fyrst birti fréttirnar af niðurstöðum frönsku rannsóknarinnar, Le Nouvel Observateur, bar gagnrýnina sem rannsóknin hefur fengið undir Joël Spiroux, forstjóra CRIIGEN* og einn af teyminu sem leiddi rannsóknina. Hér eru svör hans þýdd yfir á íslensku en afar mikilvægt er að almenningur sjái þau til að geta borið saman við þá gagnrýni sem komið hefur fram í fjölmiðlum hér á landi og erlendis. Dæmi hver fyrir sig.
*CRIIGEN er sjálfstæð stofnun um rannsóknir og upplýsingaöflun varðandi erfðabreytingar.
200 rottur er of lítill hópur til að byggja áreiðanlega rannsókn á.
Þessi hópur af 200 rottum, 20 rottur í hóp, samsvarar þeim fjölda sem Monsanto hefur notað í sínum rannsóknum og stóðu í þrjá mánuði (Oddný: Franska rannsóknin stóð í tvö ár.) Við rannsökuðum hins vegar mun fleiri atriði er varða eituráhrif. Ef við hefðum ætlað að vinna með stærri hóp rotta hefði þurft mun meira fjármagn, en rannsóknin hefur þegar kostað €3,2 milljónir.
Rottutegundin sem notuð var, Sprague-Dawley, er þekkt fyrir að mynda auðveldlega æxli
Já, en þetta er tegund sem er notuð um allan heim í rannsóknum á eiturefnaáhrifum. Þessar rottur eru stöðugar, bæði líffræðilega og líkamlega. Þær hafa allar nokkurn veginn sama prófíl og sömu líkamsþyngd. Þær hafa verið notaðar frá upphafi rannsókna á erfðabreyttum lífverum, af þeim fyrirtækjum sem framleiða þær, þ.á.m. Monsanto. Staðreyndirnar eru þessar: Þær sem voru fóðraðar á erfðabreyttum maís, með eða án Round Up, þróuðu fleiri sjúkdóma og hraðar.
Þegar nánar er skoðað, þróuðu karlrottur, sem fóðraðar voru á erfðabreyttum maís, í það heila ekki fleiri æxli en samanburðahópurinn?
Það sem þarf að skoða er nákvæmlega hversu fljótt þróunin átti sér stað. Í þessum þremum hópum af rottum sem rannsakaðar voru komu æxli eða skemmdir í nýru og lifur fram strax á fjórða mánuði og svo verður sprenging á 11. og 12. mánuði sem samsvarar 35 til 40 mannsárum. Hjá samanburðahópnum komu æxlin fyrst og fremst fram í lok ævinnar, þ.e. á 23. og 24. mánuði sem virðist vera eðlilegt hjá rottum.
Sumir vísindamenn benda á vöntun á upplýsingum um nákvæma samsetningu þeirrar fæðu sem rotturnar fengu
Rotturnar fengu algengar og staðlaðar krókettur, enn og aftur þær sömu og þær sem framleiðendur erfðabreyttra lífvera hafa notast við í rannsóknum sínum. Eini munurinn er sá að við mældum nákvæmlega hversu mikið af erfðabreyttum maís var notað: 11% í fyrsta hópnum, 22% í öðrum hópnum og 33% í þeim þriðja.
Magn erfðabreyttra lífvera sem rotturnar fengu er meira en það sem mennirnir innbyrða
Það er aldeilis ekki rétt. Magnið af NK603 maísnum var sambærilegt því sem mannfólkið innbyrgðir á ævinni í Bandaríkjunum, þar sem erfðabreytt matvæli eru í frjálsri sölu, ómerkt og án rekjanleika. Það kemur í veg fyrir að hægt sé að finna út hvað sé sjúkdómsvaldandi og gefur færi á afneitun. Þess vegna heyrist sagt að Bandaríkjamenn hafi borðað erfðabreytt matvæli í 15 ár án þess að hafa veikst.
Tímaritið sem hefur verið valið til að birta rannsóknina, „Food and Chemical Toxicology“ er ekki það glæsilegasta í Bandaríkjunum?
Það er langt frá því að vera annars flokks: Þetta er vísindatímarit sem er þekkt á alþjóðavettvangi. Birtingar í því þurfa að vera ritrýndar og þar koma fram mismunandi sjónarmið. Og það er tímaritið sem Monsanto og aðrir framleiðendur nota til að birta sínar rannsóknir.
Einnig hefur heyrst að Gilles-Eric Séralini sé þekktur andstæðingur erfðabreyttra lífvera og að hann hafi náð fram þeim niðurstöðum sem hann vildi
Þetta er rangt. Gilles-Eric Séralini, CRIIGEN og vísindamennirnir í rannsóknastofu hans í Háskólanum í Caen rannsaka einnig erfðabreyttar lífverur, því þær gefur þeim þekkingu á því sem er lifandi. Þeir hafa ekkert á móti erfðabreyttum lífverum í lyfjaframleiðslu. Insúlín er til dæmis framleitt úr erfðabreyttum lífverum. Það kemur ekki í veg fyrir að ég skrifa það út fyrir sjúklingana mína sem eru sykursjúkir. Þessi lyf þekkjast á merkingunni „recombined protein“. Aftur á móti er Gilles-Eric Séralini og við hin á móti notkun erfðabreyttra lífvera í landbúnaði, illa merkt og þar sem eiturefnaáhrifin til lengri tíma hafa verið illa rannsökuð.
Þið eruð ekki krabbameinssérfræðingar, hvað vitið þið um æxlin?
Nei, við erum ekki krabbameinssérfræðingar og höfum aldrei þóst vera. Þetta er rannsókn á eiturefnaáhrifum, ekki á krabbameinsmyndun, sem fer eftir öðrum stöðlum. Við segjum hvergi að þessi æxli séu krabbameinsæxli. Þetta eru „fibro-adenoms“ og „chirato-acantoms“ sem geta orðið að krabbameinsæxli þegar rotturnar eldast.
Það verður að koma mótrannsókn
Við erum alveg sammála því. Við viljum einnig fá mótrannsókn, en gerða af sjálfstæðum vísindmönnum. Ekki af þeim sem gera rannsóknir fyrir framleiðendur erfðabreyttra lífvera. Eins og er útilokar það EFSA (European Food Security Agency).
Þýðing: Dominique Plédel Jónsson og Oddný Anna Björnsdóttir
Tengillinn á frönsku greinina/viðtalið: http://tempsreel.nouvelobs.com/ogm-le-scandale/20120920.OBS3130/ogm-9-critiques-et-9-reponses-sur-l-etude-de-seralini.html
===================================================================== Monsanto á Spáni (Jaime Costa, framkvæmdastjóri tæknideildar) ráðleggur þeim sem vilja fá óháðar upplýsingar og rök um „þessa rannsókn sem hefur ekki verið ritrýnd af EFSA“ að fara á heimasíðu www.sciencemediacenter.org /pages/press_release.
Þar eru viðbrögð átta vísindamanna sem allir rakka niður rannsókn Séralinis. Hvað er Science Media Center? „Sjálfstætt fyrirtæki sem kemur áliti vísindamanna á framfæri við fjölmiðla í Englandi“. En það gleymist að segja frá því að Science Media Center fær 70% af tekjum sínum frá líftæknifyrirtækjum, BASF, Bayer, Novartis, CropLife International og Novartis.
Þó það komi skýrt fram að það séu hagsmunaárekstrar, virkar þetta vel: Reuters endurkastar áliti þriggja vísindamanna sem svo er tekið upp gagnrýnislaust af RÚV og kynnt sem heilagur sannleikur.
- - - - - - -
Að lokum er hér myndband sem var gert um rannsóknina og niðurstöður hennar: http://www.youtube.com/watch?v=Njd0RugGjAg&feature=youtu.be
Ljósmynd: Rannsóknarmýs með kýli, af Sustanable Pulse.com.
Birt:
Tilvitnun:
Oddný Anna Björnsdóttir, Dominique Plédel Jónsson „Sláandi svör frönsku vísindamannanna við gagnrýninni“, Náttúran.is: 25. september 2012 URL: http://nature.is/d/2012/09/25/slaandi-svor-fronsku-visindamannanna-vid-gagnrynin/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.