Erfðabreytt umræða á villigötum
Stefán Gíslason segir á bloggsíðu sinni í dag:
Síðustu daga hefur mikið verið rætt um erfðabreyttar lífverur í kjölfar greinar eftir Gilles-Eric Séralini og félaga í vísindatímaritinu Food and Chemical Toxicology, þar sem fram kom hækkuð sjúkdóma- og dánartíðni hjá rottum sem fengu erfðabreyttan maís sem gerður hafði verið ónæmur fyrir plöntueitrinu Roundup, hvort sem maísinn hafði verið meðhöndlaður með eitrinu eður ei. Ég fagna þessari umræðu, en mér finnst hún samt hafa verið á villigötum. Mér finnst umræðan hafa snúist allt of mikið um áreiðanleika Séralinis og kosti og galla þeirra aðferða sem hann og félagar hans beittu. Aðalatriði málsins hefur að mínu mati orðið útundan.
Aðalatriðið er þetta: Þessi eina rannsókn, hversu gölluð eða fullkomin sem hún er, sannar hvorki né afsannar staðhæfingar um skaðsemi eða skaðleysi erfðabreyttra lífvera. Hún undirstrikar fyrst og fremst þá staðreynd að skaðleysið hefur ekki verið sannað. Um leið undirstrikar hún að við þurfum að ráðast í mun meiri rannsóknir áður en lengra er haldið í nýtingu erfðabreyttra lífvera til fóðurs og manneldis. Í þessum rannsóknum er sérstaklega mikilvægt að huga að hugsanlegum langtímaáhrifum á heilsu manna. Það rannsóknarsvið er nánast óplægður akur!
Komandi kynslóðir eiga betra af okkur skilið en að við drepum á dreif málum sem geta skipt sköpum fyrir þær. Horfumst í augu við aðalatriðin og hættum að karpa um tölfræðileg álitamál og gáfnafar ritrýnenda!
Að lokum þykir mér rétt að minna á að áður en við tökum ákvarðanir um nýtingu erfðabreyttra lífvera til framtíðar þurfum við að rannsaka fleira en hugsanleg áhrif á heilsu manna. Vistfræðilegir og félagshagfræðilegir þættir eru ekki síður mikilvægir!
Grafík: Af bloggsíðu Stefáns Gíslasonar.
Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Erfðabreytt umræða á villigötum“, Náttúran.is: 24. september 2012 URL: http://nature.is/d/2012/09/24/erfdabreytt-umraeda-villigotum/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.