Svissneskt rösti
Svissneskt rösti var upprunalega morgunverður svissneskra bænda og er gert á mismunandi hátt eftir héruðum. Sagt er að nóg sé að spyrja – hvernig gerir þú rösti – til að komast að því úr hvaða landshluta viðkomandi kemur.
Fyrsta uppskrift af kartöflurétti á Vesturlöndum er trúlega úr svissneskri kokkabók frá árinu 1596, eftir konu nokkra, og þar er að finna hina frægu uppskrift að Kartoffelnrösti sem enn heldur vinsældum sínum.
Uppskriftin hljóðar upp á 750 g af kartöflum sem eru þéttar í sér (stórar, rauðar íslenskar passa vel þarna). Kartöflurnar eru léttsoðnar með 1 tsk af kúmeni. Vatninu er hellt af og þær eru kældar og skrældar ef vill og látnar standa undir klút yfir nóttina. Næsta dag skal rífa kartöflurnar á rifjárni gegnum stærstu, dropalöguðu götin. 100 g af smátt skornu spiki er sett á pönnu og feitin úr því látin renna eins og hægt er. Látið kartöflurnar í og snúið stöðugt með spaða þangað til þær eru næstum alveg búnar að drekka í sig fituna og saltið. Síðan skal hnoða kartöflurnar saman í eina köku og steikja uns neðri hliðin verður gullinbrún á lit. Þá má dreypa 2 msk mjólk yfir og þegar hún er horfin í kökuna má snúa henni á pottloki og steikja áfram þangað til neðri hliðin er líka orðin gullinbrún. Berið fram á upphituðu fati eða sjálfri pönnunni.
Úr „Blálandsdrottningin og fólkið sem ræktaði kartöflurnar“ eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Svissneskt rösti“, Náttúran.is: 20. september 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/20/svissneskt-rosti/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 23. september 2012