Töðugjöld og slægjur
Töðugjöld voru dálítill glaðningur, sem heimilisfólki var gefinn, þegar búð var að alhirða töðuna af túninu. Auðvitað fór það eftir efnum, ástæðum og lundarfari húsráðenda, hversu vel hann var útilátinn, en langalgengast mun hafa verið að gefa kaffi, sem einu sinni var reyndar hátíðardrykkur, og pönnukökur eða annað bakkelsi, sem á hverjum tíma þótti eftirsóknarverðast. Brennivínstár gáfu þeir húsbændur, sem betur máttu og vildu. En matarveisla mun hafa verið sjaldgæf af þessu tilefni, enda nýmeti ekki enn á boðstólum. Miklu betur var veitt fyrr á tímum, þegar engjaslætti lauk og heyskapnum þar sem að fullu. Enda var þá oftast komið langt fram eftir september og fé komið af fjalli, svo að hægt var að slátra til veislunnar.
Þessi matarveisla hét frá fornu fari slægjur, slagar eða slagi. Hún var algeng víðsvegar um land fram undir síðustu aldamót og sumsstaðar lengur. Eggert Ólafsson getur um hana í Ferðabókinni frá miðri 18. Öld. Slægjur voru oft haðar á Mikjálsmessu.
Elsta æmið er þó í heldur kaldranalegri sögu af Ólafi konungi digra fyrir Stiklastaðarorrustu, sem til er í ýmsum gerðum. En kjarni hennar er sá, að Ólafur konungur sér einn óvin sinn, sem Hrútur heitir. Þá spyr hann einhvern Íslending, hvort það sé satt, að bændur á Íslandi gefi húskörlum sínum slagasauð á haustin. Því er svarað játandi. Þá segist hann nú skulu gefa þeim Íslendingum, sem í liði hans eru, hrút til sláturs. Skuli þeir fara og drepa Hrút þennan og alla hans menn. Og það gera Íslendingar.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Töðugjöld og slægjur“, Náttúran.is: 21. september 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/tugjld-og-slgjur/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 1. janúar 2013