Hér á undan var fjallað um mat og drykk á almennum heimilum, en á miðöldum og lengur var greinilega nokkuð um það, að höfðingjar og heldri menn byðu í stórveislur um jólin.
Áður var getið um veislur í heiðnum sið, en frá 13. öld eru líka mörg dæmi um jólaveislur í Sturlungu. Um Snora Sturluson segir 1226: “Snorri hafði um veturinn jóladrykki eftir norrænum sið. Þar var mannmargt.”

Um Gissur Þorvaldsson segir 1241:
“Gissur sat í Tungu um veturinn. Hann hafði fjölmennt jólaboð og bauð vinum sínum að hinum átta degi. Þar var mjöður blandinn og mungát heitt. Þar var alþýðudrykkja hinn átta dag jóla og setið þó skamma hríð. Þar var nær átta tigum vígra manna.”

Um Þórð kakala segir 1243:
“Sat hann þá heima um veturinn allt um jól fram. En að jólum bauð hann til sín öllum hinum bestu mönnum úr Vestfjörðum. Hafði hann þá veislu mikla á Mýrum. Strengdi Þórður þá heit og allir hans menn. Þórður strengdi þess heit að láta aldrei taka mann úr kirkju, hverjar sakir sem sá hefði til við hann, og það efndi hann. En er menn fóru í brott, veitti hann mörgum mönnum gjafir. Voru þá allir meiri vinir hans en áður.”

Þorgils skarði var í Miklabæ veturinn 1257:
“Sat hann þá heim a fram um jól og hafði veislur miklar og jólaboð mikið. Bauð hann þá til sín mörgum stórbóndum og gaf þeim stórgjafir. Var þar þa hin mesra rausn bæði sakir fjölmennis og híbýla.”

Hólabiskupar hafa og verið harla veisluglaðir um jól. Heinrekur Kársson norski býður Þorgilsi skarða til sín 1252:
“Jóladaginn skipaði biskup mönnum í sæti. Setti hann Þorgils hið næsta sér á pall og svo menn sem bekkurinn vannst. Biskup bauð Þorgilsi þar að sitja og öllu hans föruneyti um jólin. Liðu nú jólin framan til tólfta dags með mikilli gleði og skemmtan. Slorti þar eigi hinn besta drykk og önnur föng. Hinn þrettánda dag jóla var veisla hin besta og drukkið fast. Urðu menn Þorgils mjög drukknir.”

Lárensíus biskup Kálfsson á 14. öld gerir heldur ekki endasleppt við þennan sið, en í sögu hans segir svo af háttum hans:
“Jólaveislu lét hann jafnan sæmilega halda prestum og öllum klerkum, próventummönnum, bryta og ráðskonu og öllum heimamönnum, svo að allir höfðu nógan fögnuð.”
Í kvæði um Jón biskup Arason segir svo á einum stað:

Veitt var jafnan veisla stór
með virðing heima á Hólum
þegar sveitin söng í kór
sínar tíðir á jólum
var stofan af fólki full.
Hann réð skenkja herlegt öl
hverjum vopna Ull.
Á felstri var þar færðu völ,
frá eg það betra en gull.

Einnig er sagt, að Guðbrandur biskup Þorláksson hafi verið vanur að hafa mannfagnað árlega á nýári og bjóða til helstu mönnum nærsveitis. En eftir þetta er fátt að frétta af stórveislum á biskupssetrinu sem annars staðar. Einkennilegt er, að engar sagnir virðast hafa varðveist um þvílíkar veislur í Skálholti, en það hlýtur nánast að ver tilviljun. Og úr Skálholsbiskupsdæmi er a.m.k. til annálsheimild fra miðri 17. öld, þar sem segir frá burtgangi séra Þórðar Jónssonar í Hítardal 1670:
“Þau hjón bæði, séra Þórður og Helga, voru hinir mestu höfðingsmenn, ör af fé, gjörful og gestrisin. Þar var stórveisla haldin einu sinni á hverjum vetri um jólatíma. Í þá veislu voru boðnir allir helstu menn, sem í nálægð voru. Stóð hún heila viku”.
En þetta virðirst vera hálfgerður svanasöngur þessarar veislugleði, enda tók nú Íslands óhamingju að verða allt að vopni næstu hundrað árin. Annar mannsbragur hélst þó nokkru lengur við, en það var jólagleði.

Birt:
17. desember 2013
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Jólaveislur“, Náttúran.is: 17. desember 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/12/jlaveislur/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 12. apríl 2007
breytt: 1. janúar 2013

Skilaboð: