Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið fyrirkomulag rjúpnaveiða haustið 2012, að fengnu mati og tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar. Veiðar verða heimilar í níu daga líkt og haustið 2011 og dreifist veiðitímabilið á fjórar helgar með eftirfarandi hætti:

 

Föstudagurinn 26. október til sunnudagsins 28. október.

Laugardagurinn 3. nóvember og sunnudagurinn 4. nóvember.

Laugardagurinn 17. nóvember og sunnudagurinn 18. nóvember.

Laugardagurinn 24. nóvember og sunnudagurinn 25. nóvember.

 

Í mati Náttúrufræðistofnunar kemur fram að rjúpnastofninn sé nú á niðurleið um allt land. Viðkoman 2012 var góð, sem bætir bága stöðu stofnsins, og hann mælist því stærri en haustið 2011 þrátt fyrir minni varpstofn. Stærð rjúpnastofnsins sveiflast reglubundið og hafa 10 til 12 ár verið á milli hámarksára. Miðað við fyrri sveiflur má búast við rjúpnaþurrð næstu ár; stofninn nær væntanlega lágmarki á árunum 2015-2018 og næsta hámark verður 2020-2022. Verði mikil afföll í rjúpnastofninum viðvarandi á næstu árum sé hins vegar ekki við því að búast að hin náttúrulega uppsveifla í lok þessa áratugar verði veruleg. Áætlaður veiðistofn nú er um 390.000 fuglar, en talið að veiðiþol sé 34.000 fuglar.

Umhverfisstofnun leggur til að veiðifyrirkomulag verði með sama hætti og 2011, þ.e. níu dagar, sem dreifist á fjórar helgar. Umhverfisstofnun leggur áherslu á að farið verði að ráðgjöf Náttúrufræðistofnunar um ráðlagða veiði upp á 34.000 fugla, sem geri um sex rjúpur á veiðimann, miðað við þann fjölda veiðimanna sem að jafnaði fari til rjúpnaveiða. Umhverfisstofnun  leggur jafnframt áherslu á fræðslu til veiðimanna um hófsamar rjúpnaveiðar. Rétt sé að viðhalda sölubanni á rjúpu, sem nú er í gildi, og framfylgja því m.a. með því að skoða hvort verslanir selji rjúpur.

Bent er á að auk þess sem áfram verður sölubann í gildi á rjúpu og rjúpnaafurðum, þá verður ákveðið svæði á Suðvesturlandi áfram friðað fyrir veiði.

Birt:
22. september 2012
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Óbreytt rjúpnaveiði 2012“, Náttúran.is: 22. september 2012 URL: http://nature.is/d/2012/09/22/obreytt-rjupnaveidi-2012/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: