Fyrsti vetrardagur genginn í garð
Í Sögu daganna eftir Árna Björnsson segir m.a. í kaflanum um fyrsta vetrardag:
Öllum veislum af þessu tagi fylgja nokkrir helgisiðir, og í heiðnum sið virðist hafa verið blótað til árs og friðar móti vetri og drukkinn full heiðinna goða og vætta. En í rauninni var lítil ástæða til að fagna komu Veturs konungs, sem síst hefur þótt neinn aufúsugestur. Svo mjög hafa menn óttast þetta árstíð, að í gamalli vísu frá 17. öld hefur staðið:
Öllu verri er veturinn en Tyrkinn.
Miklu lengra varð ekki komist í óhugnaði en að telja nokkurt fyrirbæri verra en sjálfan Hundtyrkjann. Því er líklegt, að í veturnóttaboðum hafi heiðar vættir verið blótaðar í þeim tilgangi að fá þær til að milda veturinn, líkt og áður var getið til varðandi þorrablót.
Þegar svo kirkjan tekur að berjast fyrir afnámi heiðinna siða, treystist hún sjaldnast til að afskipa veisluhöldin sjálf, því að fólkið vill hafa sína eiki og brauð, heldur leitast hún við að breyta trúarlegu inntaki þeirra og hnikar tímasetningunni til. Varla hefur því mannfagnaður í vetrarbyrjun verið látinn með öllu niður falla. Ólafur Tryggvason færði haustöl til Mikjálsmessu, en sá dagur hefur ekki hentað hér, þar sem sláturtíð var vart hafin. Líkur benda hinsvegar til þess, að annar dagur nærri vetrarbyrjun, allraheilagramessa, hafi komið í staðinn.
Einsog fyrir sumarbyrjun hafa menn gert sér far um að spá með ýmsum hætti fyrir veðurfari vetrarsins. Einna kunnastur voru þær aðferðir að spá í vetrarbrautina, kindagarnir eða milta úr stórgripum.
Vetrarbrautina átti að lesa frá austri til vesturs, en hún þótti sjást best í nóvember. Henni var skipt í þrjá hluta og vetrinum sömuleiðis. Þar sem voru þykkir kaflar í vetrarbrautinni, átti að verða snjóþungt um veturinn á samsvarandi tíma.
Þegar spá skyldi í sauðagarnir, var aðeins mark takandi á fyrstu kindinni, sem slátrað var heima á haustin. Byrjað var að skiða garnirnar hjá vinstrinni og táknaði hún upphaf vetrar. Síðan var haldið ofaneftir. Jafnan er nokkuð um tóma bletti í görnunum og áttu þeir að boða harðindakafla á vetrinum.
Þegar spáð var í milta, voru skornir tveir eða þrír skurðir í það, helst blindandi, og það síðan hengt upp á vegg. Menn greinir lítið eitt á um það, hvort taka ætti mark á skurðunum sjálfum, hversu djúpir þeir yrðu, eða þeim hlutum miltans, sem urðu á milli þeirra, og virðist það algengara. Miltað hvítnar smám saman, þegar það hangir og þornar, og áttu þeir hlutar þess, sem fyrst hvítnuðu, að segja fyrir um snjóasömustu kafla vetrarins.
Talsvert mark var og tekið á ýmsu í atferli dýra, en það væri efni í lengra rit. Þetta átti bæði við um húsdýrin, en líka önnur nábýlisdýr svo sem mýs, hrafna og refi, jafnvel orma og pöddur.
Úr Sögu daganna eftir Árna Björnsson.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Fyrsti vetrardagur genginn í garð“, Náttúran.is: 25. október 2014 URL: http://nature.is/d/2007/10/27/fyrsti-vetrardagur-genginn-gar/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 27. október 2007
breytt: 31. október 2014